„Það er afar sérstakt að röð af minniháttar mistökum geti leitt til tugmilljóna tjóns fyrir borgarann,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Páls Guðmundssonar á Húsafelli sem dæmdur hefur verið til að fjarlægja legsteinasafn af lóð sinni.

Eins og fram hefur komið dæmdi Héraðsdómur Vesturlands Pál á Húsafelli til að fjarlægja byggingu yfir legsteinasafn, sem verið hefur í smíðum á síðustu árum. Var það gert að kröfu Sæmundar Ásgeirssonar, sem á Gamla bæinn svokallaða og rekur þar gistiþjónustu.

„Málið er auðvitað afar sérstakt,“ segir Ragnar. „Páll byggði samkvæmt byggingarleyfi stjórnvalds, hann byggði aldrei í leyfisleysi: þetta er ekki óleyfisframkvæmd eins og stundum er talað um.“

Ragnar segir að rekja megi málið til mistaka við birtingu auglýsinga sem varði þetta svæði. Það hafi ekki verið hlutverk Páls að annast þær auglýsingar, heldur Borgarbyggðar. Nágranni sem sé ekki sáttur við Pál vegna sameiginlegs bílastæðis þeirra hafi áttað sig á þessu og hrint málinu af stað.

„Og það leiðir til þessarar niðurstöðu, að þrátt fyrir byggingarleyfi, þá eigi byggingarleyfið sér ekki næga stoð í réttilega auglýstu skipulagi. Þetta hefur ekkert með efni máls að gera, þetta er bara eintómt form. Þannig að formið trompar öll réttindi,“ útskýrir Ragnar.

Aðspurður hvort til standi að rífa legsteinasafnið, eins og dómurinn kveður á um, segir Ragnar málið allt í athugun hjá aðilum málsins. „Það er enn nægur tími til þess áfrýja,“ segir Ragnar, sem kveðst ekki vita hvort flötur sé á sáttum í málinu.

„Svo er það spurning: hvar liggur ábyrgð stjórnvaldsins – sveitarstjórnarinnar – þegar upp verður staðið að lokum?“ spyr Ragnar.

Málið allt mun leggjast þungt á sveitarstjórnarmenn í Borgarbyggð. Á síðasta fundi sínum kvaðst byggðarráð harma þá stöðu sem komin sé upp varðandi fyrirkomulag bygginga á Húsafelli. Ráðið sagðist um leið árétta þá stefnu sem miði að því að á Húsafelli verði veitt fjölbreytt þjónusta. „Mikilvægt er að eigendur lands og fasteigna komi sér saman um fyrirkomulag bygginga og tengdrar aðstöðu, með gerð deiliskipulags og hvetur byggðaráð þá til að láta á það reyna áður en núverandi fyrirkomulagi mannvirkja er breytt. Sveitarfélagið hefur boðist til að hafa frumkvæði að gerð deiliskipulagsins og það stendur enn til boða,“ segir byggðarráðið.