Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, hefur sent fyrirspurn á Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra fyrirspurn um börn sem hefur verið vísað úr landi. 

Málefni flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd hafa verið áberandi í umræðunni síðustu vikurnar. Bæði vegna mótmæla sem umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa staðið fyrir á Austurvelli, sem og vegna afganskrar fjölskyldu sem vísa á úr landi. Ein þeirra er fjórtán ára stúlka sem er nemandi í Hagaskóla og hafa nemendur þar í bæ barist fyrir því að skólasystir þeirra, móðir hennar og ungur bróðir, fái að vera hér á landi áfram. 
Í fyrirspurn sinni til dómsmálaráðherra spyr Jón Þór Þórdísi hve mörg börn hafi þurft að yfirgefa Ísland vegna þess að þeim eða foreldrum þeirra hafi verið vísað úr landi frá því að lög um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins tóku gildi árið 2013. 

Þá spyr Jón hvernig hver brottvísun sé rökstudd, samanber ákvæði samningsins um að það sem barni sé fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn. 
Að lokum spyr Jón Þór hvaða upplýsingar stjórnvöld eða stofnanir hafa um afdrif þessara barna til að meta hvort brottvísun hafi verið barni fyrir bestu.