Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sendi fyrirspurn á alla ráðherra ríkisstjórnarinnar varðandi útgjöld hvers ráðherra í kostaðar dreifingar auglýsinga á samfélagsmiðlum eins og Facebook, Instagram, Youtube og Twitter.  

Í fyrirspurninni spyr Björn Leví hvaða stefnu ráðherrar hafa að því er snertir auglýsingakaup á samfélagsmiðlum. Einnig spyr hann hvort keyptar auglýsingar og kostaðar dreifingar á erlendum samfélagsmiðlum samræmist stefnu ríkisstjórnarinnar um að efla íslenska fjölmiðla. 

„Ég fékk ábendingu um að það hefði verið einhver ‚sponsor‘ á samfélagsmiðlum. Maður veltir því fyrir sér hvernig það samræmist stefnu stjórnvalda um að efla íslenska fjölmiðla ef verið er að kaupa auglýsingar frá erlendum samfélagsmiðlum,“ segir Björn Leví í samtali við Fréttablaðið. 

„Ég klóra mér aðeins í hausnum og ákvað að spyrja til að fá heildarumfangið. Kannski er þetta ekkert rosalega mikið. Hver veit.“

Samfélagsmiðlar á borð við Facebook bjóða notendum að dreifa auglýsingum fyrir mismikinn kostnað. Fjölmiðlanefnd lagði til að fjársýsla ríkisins tæki saman árlega skýrslu um auglýsingakaup ríkisins í greinargerð til Mennta- og menningarmálaráðherra í fyrra. 

„Nefndin leggur til að settar verði skýrar reglur um gagnsæi í auglýsingakaupum hins opinbera þannig að opinberum aðilum beri að birta sundurliðaðar upplýsingar um kaup á auglýsingum.“