Bólu­efni Rússa gegn CO­VID-19, Sput­nik V, kemur í veg fyrir veikindi vegna sjúk­dómsins í 91,6 prósent til­fella sam­kvæmt bráða­birgða­niður­stöðum úr þriðju fasa prófunum en niður­stöðurnar voru birtar í lækna­tíma­ritinu The Lancet fyrr í dag.

Þó nokkrar þjóðir hafa samið við Rússa um kaup á bólu­efninu, til að mynda Serbía, Argentína, Ung­verja­land, Íran, Armenía og Palestína, en bólu­setningar voru hafnar áður en bólu­efnið hafði lokið þriðja fasa prófunum og er talið að fleiri en tvær milljónir manna hafi þegar verið bólu­settir.

Niður­stöðurnar byggja á rann­sókn var gerð meðal 20 þúsund ein­stak­linga í Moskvu í Rúss­landi þar sem þrír fjórðu fengu bólu­efnið en hinir lyf­leysu. Flestir þátt­tak­endur voru hvítir og milli 18 og 60 ára aldri en rúm­lega tíu prósent voru eldri en 60 ára.

Að því er kemur fram í lækna­ritinu komu engar al­var­legar auka­verkanir fram meðal þeirra sem tóku þátt í rann­sókninni. Fjórir ein­staklingar létust á meðan rann­sókninni stóð, einn þeirra sem fékk lyf­leysu og þrír sem fengu bólu­efni, en ekki er talið að tengsl séu þar á milli.

Tveir skammtar voru gefnir af bólu­efninu með þriggja vikna milli­bili en verið er að rann­saka hvort einn skammtur dugi til að ná fram ó­næmi þar sem fyrstu niður­stöður bentu til að virknin væri 73,6 prósent eftir 15 til 21 dag.

Ódýrir skammtar sem auðvelt er að geyma

Bólu­efnið er það fjórða, á eftir bólu­efni Pfizer, Moderna og AstraZene­ca, sem hefur fengið niður­stöður þriðju fasa prófana birtar í rit­rýndu lækna­riti. Læknar segja þó að ekki sé búið að rann­saka virkni bólu­efnisins nógu vel gegn ein­kenna­lausum til­fellum CO­VID-19.

Geymslu­þol bólu­efnisins er um tveir mánuðir og getur geymst í hita­stigi yfir frost­marki, ó­líkt bólu­efnum Pfizer og Moderna sem þarf að geyma í miklu frosti. Þá er verðið á hvern skammt um helmingi lægra heldur en bólu­efni Pfizer og Moderna, en bólu­efni AstraZene­ca er á­fram ó­dýrast.

Kirill Dmitri­ev, fram­kvæmda­stjóri rúss­neska fjár­festingar­sjóðsins RDIF, sem fjár­magnar bólu­efnið, segist telja að hægt verði að bólu­setja um 700 milljón manns á þessu ári með bólu­efninu og eru við­ræður í gangi við AstraZene­ca um mögu­legt sam­starf.