Reykjavíkurborg hefur ákveðið að kaupa svokallaða hljóðdempandi símaklefa upp á rétt tæpar fimm milljónir króna. Óskað var eftir að fjármála- og áhættustýringarsvið borgarinnar skilaði frekari skýringum á því hvaða heimild hefði verið til staðar fyrir kaupum á símaklefunum, sem keyptir voru af Syrusson hönnunarhúsi.

Samkvæmt bréfi sem sent var til sviðsins þótti vanta nánari skýringu á hvernig sú niðurstaða hefði fengist að Syrusson væri eini seljandinn með sambærilega vöru, ásamt viðeigandi vísun í innkaupareglur. Einnig vantar upplýsingar um hvort umrædd upphæð sé með eða án virðisaukaskatts, segir í bréfinu.

Fjármála- og áhættustýringarsvið segir í svari sínu að skýringar á yfirlitinu hefðu mátt vera skýrari og hefur yfirlitið verið uppfært.

Í svari sviðsins kemur fram að það hafi gert þarfagreiningu og samanburð en um sé að ræða svokallaða hljóðdempandi símaklefa og þurftu þeir að uppfylla ákveðin skilyrði eins og að passa inn í það rými sem þeim var ætlað að vera í og uppfylla ákveðin skilyrði um hljóðvist og ýmislegt fleira.

Þegar farið var að kanna þá kosti sem voru í boði þóttu klefarnir frá Syrusson þeir sem hentuðu best miðað við þarfir borgarinnar. Má þar nefna meðal annars hversu lítið pláss þeir taka en rými skrifstofunnar er takmarkað. Þá þykja þeir henta vel hvort heldur er sem símaklefar en einnig vegna funda en hver klefi tekur tvær manneskjur í sæti. Ekki reyndist mikið úrval af þessari stærð og gerð klefa.