„Við fengum einhver svör, en alls ekki afgerandi og vitum enn ekki af hverju Jakub þurfti að fara, þrátt fyrir að hafa unnið frábært starf hér,“ segir Justyna Grosel, ein sex fulltrúa pólskra félagasamtaka sem áttu fund með sendiherra Póllands á Íslandi í upphafi vikunnar. Tilefni fundarins var brotthvarf ræðismannsins Jakobs Pilch frá Íslandi en honum var skyndilega sagt upp starfi sínu í pólska utanríkisráðuneytinu og hann kallaður heim til Póllands fyrr í þessum mánuði.

Eins og Fréttablaðið greindi frá var Jakub mjög vinsæll í pólska samfélaginu á Íslandi og mikil óánægja varð meðal margra pólskra Íslendinga þegar tíðindin um brotthvarf spurðust út.

Forsvarsmenn fjölda félagasamtaka tóku sig saman og rituðu bréf til að óska skýringa á brottrekstrinum. Þau komu að lokuðum dyrum þegar þau hugðust afhenda sendiherra Póllands bréfið og var vísað frá sendiráðinu án þess að hafa komið bréfinu í hendur starfsmanna sendiráðsins.

Í frétt sem birtist á þriðjudaginn á miðlinum icelandnews.is kemur þó fram að daginn eftir þessa tilraun til samskipta, hafi borist erindi úr sendiráðinu með boði til forsvarsmannanna um fund með sendiherranum.

„Við áttum rúmlega klukkutíma samtal við sendiherrann og ræddum ýmislegt. Varðandi brotthvarf Jakubs er mörgum spurningum enn ósvarað og við getum aðeins getið okkur til um hver ástæða brotthvarfs hans er,“ segir Justyna. Hún segir að svör sendiherrans um brotthvarfið hafi verið á þá leið að um innri málefni utanríkisráðuneytisins væri að ræða.

Hún tekur fram að samskiptin við pólsk yfirvöld á Íslandi hafi verið af hálfu nokkurra pólsk-íslenskra samtaka og þau telji sig á engan hátt vera málsvara allra Pólverja á landinu og ýmis viðhorf geti sjálfsagt verið uppi um Jakub og hans störf.

„Okkar reynsla af honum er hins vegar sú að hann er opinn, víðsýnn, hjálpsamur og traustur. Nú síðast fengum við að reyna það eftir brunann á Bræðraborgarstíg. Þá var hann á sólarhringsvakt við símann að aðstoða og styðja fjölskyldur þeirra sem létust í brunanum, langt umfram það sem honum bar skylda til starfs síns vegna,“ segir Justyna.

Fréttablaðið náði sambandi við Jakub nokkrum dögum eftir að greint var frá uppsögninni í pólskum fjölmiðlum og þá var hann þegar kominn til Póllands með fjölskyldu sína. Hann vildi ekki tjá sig um brotthvarf sitt að svo stöddu.