„Þetta er bara mjög mikil grundvallarspurning um það hvernig samfélagi við viljum búa í. Viljum við búa í samfélagi með mjög miklu lögreglueftirliti eða viljum við búa í samfélagi þar sem við treystum borgurunum og treystum fólki?“

Þetta sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á upplýsingafundi í dag aðspurður um hvort það væri tilefni til að herða eftirlit með fólki sem komi hingað til lands í stað þess að treysta á að það fylgi settum reglum.

Í spurningunni var vísað til þess að lögregla hafi haft afskipti af fjórum erlendum ferðamönnum á laugardag sem virtu ekki reglur um sóttkví. Fram kom í tilkynningu frá lögreglu að einn þeirra hafi reynt að stofna til slagsmála á Laugavegi og látið ófriðlega þegar lögregla skipti sér af honum. Var hann í kjölfarið færður í fangaklefa.

Ekki spenntur fyrir fjölgun lögregluheimsókna

„Svo er líka hægt að fara einhvern milliveg sem ég held að við séum að gera að einhverju leyti, það er að segja við fylgjum vel eftir öllum ábendingum um hugsanleg brot á sóttkví. Það er svo auðvitað rammi sem sem grípur þau mál, eins og í þessu máli sem lauk með sektargreiðslum,“ bætti Víðir við.

Hann sagði eftirlitsgetu vera til staðar hjá embættinu sem væri til að mynda með eftirfylgniteymi sem hafi eftirlit með þeim sem skili sér ekki í seinni skimun.

Þegar hringt sé í þá aðila sé skýringin oft sú að ferðamennirnir hafi verið hér á landi í stuttum erindagjörðum af ýmsum orsökum, til dæmis vegna jarðarfarar, og verið búnir að yfirgefa landið. Þá væri reynt að ganga eftir því þegar fólk mæti ekki í seinni skimun af öðrum ástæðum.

„Ég veit ekki alveg hvað meira við eigum að gera í eftirliti. Ég er nú ekkert sérstaklega spenntur fyrir því að hér sé lögreglan einhvern veginn að banka á dyr og kanna hvort fólk sé í sóttkví eða ekki. Mér finnst það ekki spennandi veruleiki.“