Í síðustu viku var greint frá því að Frans páfi hafi sam­þykkt að breyta þýðingu einnar setningar Faðir vorsins. Þó að breytingin komi ekki til með að hafa nein á­hrif á ís­lenska þýðingu bænarinnar þá eru biblíu­fræðingar ekki á einu máli með þýðinguna og er deila þeirra alls ekki ný af nálinni. Prófessor við Háskóla Íslands segir að breytingin sem Frans Páfi boðaði endurspegli breyttar þarfir og túlkun á texta biblíunnar og hegðun Guðs.

Breytingin er á orða­laginu sem þýtt hefur verið á ís­lensku í „Eigi leið þú oss í freistni“ sem nú mun verða nærri, í þýðingu blaða­manns: „Ekki leyfa okkur að falla í freistni“.

„Þýðingar á fornum textum eru á­kvarðaðar út frá ýmsum þáttum, bæði mál­fræði­legum og sögu­legum. Stundum hafa aðrir þættir hins vegar á­hrif á þýð­endur, eins og þarfir og hug­myndir sam­tímans, eða, líkt og í þessu til­viki, guð­fræði­leg hug­mynda­fræði. Það er ekki nýtt að það sé deilt um þetta til­tekna vers í „Faðir vorinu“, því málið varðar þá á­leitnu spurningu hvort mögu­legt sé að kær­leiks­ríkur Guð leiði bein­línis fólk til freistni,“ segir Rúnar Már Þor­steins­son, prófessor í fræðum nýja testa­mentisins við Há­skóla Ís­lands, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Breyting ekki gerð á forsendum texta, heldur trúvarnar

Rúnar segir að sumir hafi and­mælt því að Guð geti leitt fólk í freistni og hafi því kallað eftir annarri þýðingu en þeirri hefð­bundnu.

„Vanda­málið er hins vegar að með því er verið að gera breytingar á þýðingunni út frá for­sendum til­tekinnar trú­varnar eða guð­svarnar, en síður á for­sendum textans sjálfs,“ segir Rúnar.

Hann segir að það sé þó hans mat að það sé „án alls vafa“ að talað sé um Guð sem „mögu­legan“ geranda í þessu sam­bandi gríska frum­textans.

„Hvort sem fólki líkar betur eða verr,“ segir Rúnar og bætir við:

„Hug­myndir til forna um guð­dóminn eru ekki alltaf í sam­ræmi við væntingar fólks í dag. Það er með öðrum orðum lítill vafi á því að þýðing Hins ís­lenska Biblíu­fé­lags á versinu, „eigi leið þú oss í freistni“ stendur nær frum­textanum en þessi nýja til­laga sem er sums staðar að ryðja sér til rúms.“