„Guð láti gott að vita að mér sýnist að ég sé að verða búin að fá jafn margar fyrirspurnir í þessum fyrsta fyrirspurnartíma sem umhverfis- orku- og loftslagsráðherra og á þeim fimm árum þegar ég var utanríkis- og þróunarráðherra,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, nýr umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, á þingfundi í dag.

Ráðherrann sat fyrir svörum þingmanna á Alþingi í dag og ræddi þar helstu málin sín, loftslagsmál og græna byltingu. Lýsti hann þar ánægju sinni yfir því að fá svo margar fyrirspurnir á einum degi miðað við síðustu ár meðan hann sat í öðru embætti. Svo virðist sem mörgum þingmönnum sé umhugað um loftslagsmál.

Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, spurði Guðlaug Þór um sölu upprunaábyrgða raforku til annarra Evrópulands og græna atvinnuuppbyggingu í samhengi við Orkustefnu Evrópusambandsins.

„Dómari sem myndi dæma þetta löglegt væri illa tengdur við raunveruleikann.“

Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Telur sölu upprunaábyrgðar ólöglega

Eyjólfur spurði hvort stjórnarmeirihlutinn ætlaði að leggjast gegn sölu á upprunaábyrgð og sagðist sjálfur telja að slík sala væri kolólögleg og væri aðeins til þess að hjálpa Evrópu að menga.

„Dómari sem myndi dæma þetta löglegt væri illa tengdur við raunveruleikann því raforkukerfi Íslands er ekki tengt við raforkukerfi Evrópu,“ sagði Eyjólfur og velti upp spurningu hvort Alþingi þyrfti að taka aðra umræðu um þriðja orkupakkann.

„Þessi sala upprunaábyrgða er á grundvelli þriðja orkupakkans og orkustefnu Evrópusambandsins, getum við þá tekið umræðu um þriðja orkupakkann aftur og fjórða orkupakkann líka? Ef það á að fara í græna atvinnuuppbyggingu, hvernig samræmist hún orkustefnu Evrópusambandsins?“ spurði Eyjólfur.

„Guð minn almáttugur! Ef ég fæ að ræða hér aftur um þriðja orkupakkann þá gleðst ég og fer yfir það sem menn sögðu um hvað myndi gerast.“

Hló þegar minnst var á þriðja orkupakkann

Þá hlakkaði í Guðlaugi Þór sem svaraði að Ísland væri ekki í Evrópusambandinu og að það væri fullkomin þvæla að tengja málið við þriðja orkupakkann.

„Guð minn almáttugur! Ef ég fæ að ræða hér aftur um þriðja orkupakkann þá gleðst ég og fer yfir það sem menn sögðu um hvað myndi gerast ef við færum í þriðja orkupakkann,“ svaraði Guðlaugur, kátur í bragði.

„Háttvirtur þingmaður getur alveg treyst á það að ég mun taka virkan þátt í þeirri umræðu,“ sagði Guðlaugur og beindi svo orði sínu að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, sem eins og frægt er orðið hélt uppi málþófi ásamt flokksmönnum sínum í kringum þriðja orkupakkann á sínum tíma.

„Háttvirtur þingmaður Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ætti kannski að rifja upp sín eigin orð og síðan hvað gerðist í kjölfarið. Hvar er sæstrengurinn sem kæmi hingað sem við gætum ekki stöðvað?“ spurði Guðlaugur og svaraði þá Sigmundur.

„Það er ekki byrjað að byggja hann.“ Hló þá Guðlaugur og botnaði: „Það er ekki farið að byggja hann ...“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á þingfundi í dag.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari