Lögreglunni í Dubaí barst fyrirspurn um undanþágu á útgöngubanni til að maður gæti heimsótt báðar eiginkonur sínar á meðan útgöngubannið stendur yfir í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Yfirvöld í Dubaí settu á útgöngubann þar sem fólki er skipað að halda sig heima nema til að sinna nauðsynjum.

Þeir sem vinna í mikilvægum störfum til að halda samfélaginu gangandi fá enn að mæta til vinnu.

Gulfnews vakti athygli á fyrirspurninni sem barst hátt settum lögreglumanni í Dubaí þegar hann var í útvarpsþætti þar í landi.

Aðilinn sem hringdi inn sagðist vera giftur tveimur konum og ekki vera viss hvort að hann þyrfti leyfi til að fara á milli þeirra.

Lögreglumaðurinn hafði gaman af spurningunni og sagði að útgöngubannið væri góð afsökun fyrir manninn til að heimsækja ekki seinni eiginkonuna fyrst að hann vildi ekki dvelja hjá henni.