Arn­dís Anna Kristínar Gunnars­dóttir, þing­maður Pírata, spurði Jón Gunnars­son, dóms­mála­ráð­herra, hvort hann hygðist láta skjóta sig með raf­byssu á opnum fundi alls­herjar- og mennta­mála­nefndar í morgun. Um­ræðu­efni fundarins var heimild lög­reglu til að bera raf­varnar­vopn, en auk dóms­mála­ráð­herra mættu full­trúar em­bættis ríkis­lög­reglu­stjóra.

Breyting á reglu­gerð dóms­mála­ráð­herra um vald­beitingu lög­reglu­manna og með­ferð og notkun vald­beitingar­tækja var birt í Stjórnar­tíðindum í gær. Breytingin hefur tekið gildi og heimilar nú lög­reglu að nota raf­varnar­vopn við störf sín.

Í svari Jóns við spurningu Arn­dísar Önnu um hvað kalli á heimild lög­reglu til að bera raf­vopn kemur fram að fjöldi út­kalla vegna skot­vopna hafi þre­faldast frá árinu 2016. Á sama tíma hafi fjöldi út­kalla vegna egg­vopna fjór­faldast.

„Í heildina voru vopnuð út­köll sér­sveitar 83 árið 2016 en 343 árið 2022. Þessi þróun leiðir af sér að nauð­syn­legt er að lög­regla þarf að búa að þessum vald­beitingar­tækjum sem hún þarf við fram­kvæmd skyldu­starfa sinna og til að gæta öryggi þeirra sem bera vopn og lög­regla neyðist til að beita valdi gagn­vart,“ segir Jón. Því líti hann svo á að rafvarnarvopn verði staðalbúnaður fyrir þá lögreglumenn sem hafi hlotið viðeigandi þjálfun.

Arn­dís Anna spurði ráð­herra einnig út í meint sam­ráðs­leysi vegna reglu­gerðarinnar, sem Jón svaraði til að hefði ekki verið raunin.

„Heimildin til að bera raf­vopn hefur verið til staðar frá því um aldar­mót eða fyrr. Þá hafa verið reglur í gildi sem heimila notkun raf­varnar­vopna við sér­stakar að­stæður, en hafa þó al­mennt ekki verið til notkunar. Heimildin hefur ekki verið nýtt þar sem raf­varnar­vopn hafa ekki verið í eigu lög­reglunnar hér á landi,“ segir Jón.

„Þingið er í raun, fyrir mörgum árum, búið að koma málum fyrir að heimildin er til staðar og verið er að út­víkka hana núna í reglum. Þetta er ekki út­gáfa á reglu­gerð heldur breytingar á reglum sem um þetta fjallar,“ bætir hann við.

Þá spurði Arn­dís Anna dóms­mála­ráð­herra hvort hann hygðist láta skjóta sig með raf­varnar­vopni.

„Það verður bara að koma í ljós,“ svaraði Jón.