Arndís Anna Kristínar Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, hvort hann hygðist láta skjóta sig með rafbyssu á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar í morgun. Umræðuefni fundarins var heimild lögreglu til að bera rafvarnarvopn, en auk dómsmálaráðherra mættu fulltrúar embættis ríkislögreglustjóra.
Breyting á reglugerð dómsmálaráðherra um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja var birt í Stjórnartíðindum í gær. Breytingin hefur tekið gildi og heimilar nú lögreglu að nota rafvarnarvopn við störf sín.
Í svari Jóns við spurningu Arndísar Önnu um hvað kalli á heimild lögreglu til að bera rafvopn kemur fram að fjöldi útkalla vegna skotvopna hafi þrefaldast frá árinu 2016. Á sama tíma hafi fjöldi útkalla vegna eggvopna fjórfaldast.
„Í heildina voru vopnuð útköll sérsveitar 83 árið 2016 en 343 árið 2022. Þessi þróun leiðir af sér að nauðsynlegt er að lögregla þarf að búa að þessum valdbeitingartækjum sem hún þarf við framkvæmd skyldustarfa sinna og til að gæta öryggi þeirra sem bera vopn og lögregla neyðist til að beita valdi gagnvart,“ segir Jón. Því líti hann svo á að rafvarnarvopn verði staðalbúnaður fyrir þá lögreglumenn sem hafi hlotið viðeigandi þjálfun.
Arndís Anna spurði ráðherra einnig út í meint samráðsleysi vegna reglugerðarinnar, sem Jón svaraði til að hefði ekki verið raunin.
„Heimildin til að bera rafvopn hefur verið til staðar frá því um aldarmót eða fyrr. Þá hafa verið reglur í gildi sem heimila notkun rafvarnarvopna við sérstakar aðstæður, en hafa þó almennt ekki verið til notkunar. Heimildin hefur ekki verið nýtt þar sem rafvarnarvopn hafa ekki verið í eigu lögreglunnar hér á landi,“ segir Jón.
„Þingið er í raun, fyrir mörgum árum, búið að koma málum fyrir að heimildin er til staðar og verið er að útvíkka hana núna í reglum. Þetta er ekki útgáfa á reglugerð heldur breytingar á reglum sem um þetta fjallar,“ bætir hann við.
Þá spurði Arndís Anna dómsmálaráðherra hvort hann hygðist láta skjóta sig með rafvarnarvopni.
„Það verður bara að koma í ljós,“ svaraði Jón.