Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í þingræðu sinni í fyrrakvöld um bankaskýrsluna að þegar bankasalan hafi fyrst verið til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd hafi nefndarmönnum verið talin trú um að ráðherra yrði „upplýstur að fullu leyti um hverja sölu“. Þetta segi orðrétt í minnisblaði Bankasýslunnar til ráðherra frá 20. janúar síðastliðnum.

Þetta er að sögn Jóhanns Páls aðeins eitt dæmi af mörgum um hvernig þingnefndunum voru veittar misvísandi og villandi upplýsingar um hvernig staðið yrði að sölunni.

„Því það sem gerðist svo, nokkrum vikum seinna, er að hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra tók ákvörðun um söluna, ekki aðeins án þess að búa yfir upplýsingum um tilboð og tilboðsgjafa heldur líka án þess að afla sér upplýsinga um það hvernig ákvörðun lokaverðs væri rökstutt, án þess að afla sér upplýsinga um stöðu tilboðsbókar, og án þess að afla sér upplýsinga um það hvaða viðmiðum yrði beitt við skerðingu og úthlutun hlutabréfa og hvernig gætt yrði að jafnræði,“ sagði Jóhann Páll.

Með öðrum orðum hafi Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tekið þessa ákvörðun, um tugmilljarða hagsmuni skattgreiðenda, með bundið fyrir augun. Án þess að taka raunverulega við „rökstuddu mati frá bankasýslunni.

„Og þarna vakna auðvitað risastórar spurningar um starfsskyldur og ábyrgð ráðherra. Voru vinnubrögð ráðherra í samræmi við skráðar og óskráðar reglu stjórnsýsluréttarins? Gætti ráðherra að rannsóknarreglu stjórnsýslulaga þegar hann samþykkti tilboð með lokuð augun án lágmarksrannsóknar? Rækti ráðherra eftirlitsskyldur sínar með viðunandi hætti gagnvart bankasýslunni á öllum stigum ferlisins? Var ráðherra hæfur eða brast honum hæfi til að selja föður sínum eignarhlut? Átti hann ekki að leggja mat á hæfi sitt fyrirfram,“ spurði þingmaðurinn.

Jóhann Páll segir þetta risastórar spurningar sem Ríkisendurskoðandi taki ekki fyrir í sinni úttekt, enda lúti eftirlitshlutverk og starfssvið ríkisendurskoðanda einvörðungu að rekstri og fjárreiðum ríkisins, ekki að starfsskyldum og lagalegri ábyrgð ráðherra.

Það kunni að vera ein ástæða þess að mati þingmannsins að Bjarni hafi leitað til Ríkiendurskoðanda að fyrra bragði og falið honum að skrifa skýrslu.