Sprungur hafa myndast í Suðurstrandarvegi sem liggur á milli Grindavíkur og Þorlákshafnar eftir skjálftahrinuna sem er nú á svæðinu.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir í samtali við Fréttablaðið að sprungurnar hafi líklegast myndast í stóru skjálftunum sem urðu í morgun.

Sprungurnar sáust ekki í gærkvöldi og því myndast í skjálftunum sem urðu í nótt eða morgun.
Ljósmynd/Vegagerðin

„Eftirlitsmenn Vegagerðarinnar sáu þetta í morgun, við höfum fylgst vel með vegakerfinu á svæðinu síðustu daga og þetta sást ekki í gærkvöldi. Okkur þykir líklegt að sprungan hafi myndast eftir þessa stóru skjálfta sem urðu í morgun en við getum ekki slegið því á föstu," segir G. Pétur.

Eins og sjá má á myndunum eru skemmdirnar ekki miklar og sprungan ekki stór og því telur Vegagerðin ekki ástæðu til að loka veginum. Sprungan þverar þó veginn.

Skemmdir verða skoðaðar nánar og gert við veginn eins fljótt og kostur er. Verið er að merkja staðinn og vara vegfarendur við en ljóst er að nauðsynlegt er að aka varlega á öllu þessu svæði því jarðskjálftar halda áfram að koma.Vegagerðin mun halda áfram að vakta vegakerfið sérstaklega á þessu svæði.

Fréttin hefur verið uppfærð.