Þingmenn Alþingis sprungu úr hlátri eftir að Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, sagðist ekki vilja eyða tíma Alþingis í að svara málflutningi Þorsteini Víglundssyni, þingmanni Viðreisnar. Ólafur Ísleifsson er einn þeirra þingmanna sem héldu uppi málþófi um þriðja orkupakkann í marga daga og nætur á Alþingi í vor.

Þorsteinn sakaði Miðflokkinn um að halda uppi öfgakenndri og rangri umræðu til þess eins að blekkja þjóðina.

„Ég held að ég hafi ekki mikið um það segja. Þessi málflutningur, svo ofsafenginn og öfgakenndur sem hann er og rakalaus, herra forseti, það varla tekur því að eyða tíma Alþingis í slíkt,“ sagði Ólafur áður en þingmenn sprungu úr hlátri. Guðjón S. Brjánsson, fyrsti varaforseti Alþingis, þurfti að fara fram á ró í þingsal.

Segir Ólaf snúa út úr

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sakaði Ólaf um útúrsnúning. Áslaug sagði að Ólafur, ásamt öðrum þingmönnum Miðflokksins, hafi snúið út úr niður­stöðu fræðimanna um þriðja orkupakk­ann.

„Að leggja þess­um fræðimönn­um það í munn að þeir telji þetta hafa ekk­ert gildi og ekk­ert vægi er al­gjör­lega fá­rán­legt,” sagði Áslaug Arna í andsvari við ræðu Ólafs.

Ólaf­ur sagði þá að Áslaug gæti ekki nefnt eitt dæmi um að hann hefði snúið út úr eða lagt mönn­um orð í munn en Áslaug Arna hafði nefnt tvö dæmi um út­úr­snún­ing.