Atkvæðagreiðslukerfi Alþingis lá niðri í dag og þurftu þingmenn því að greiða atkvæði með því að rétta upp hönd. Kosið var um beiðni um skýrslu um árangur og áhrif styttingar námstíma til stúdentsprófs.

„Fer nú fram atkvæðagreiðsla um hvort skýrslubeiðnin skuli leyfð en nú háttar svo til atkvæðagreiðslukerfi þingsins er ekki í lagi. Við hverfum til verklags fyrri tíma og lagt er til að greidd verði atkvæði með handauppréttningu,“ sagði Guðjón S. Brjánsson, fyrsti varaforseti Alþingis, og brugðust þingmenn við með hlátri og lófataki.

Þá er þetta ekki í fyrsta sinn sem Alþingi hefur þurft að hverfa til verklags fyrri tíma en árið 1992 voru greidd atkvæði með handauppréttingu eftir að upp komst um að þingmaður hafi greitt atkvæði fyrir annan með atkvæðagreiðslubúnaðnum.