Flugi tveggja öflugra rússneskra sprengjuvéla á norðurslóðum var beint af leið af herþotum norska hersins á þriðjudag. Forbes greinir frá því að talið sé að flug þeirra sé svar við fyrirhuguðum æfingum bandaríska flughersins í næsta mánuði, en einnig er hugsanlegt að vélarnar hafi átt að fljúga í átt að Íslandi og senda skilaboð til Atlantshafsbandalagsins, NATO, vegna loftrýmisgæslu hér á landi.

Kremlarstjórn sjálf tilkynnti ferð vélanna, sem eru öflugustu sprengjuvélar flughersins, af gerðinni Tu-160, og geta borið kjarnavopn. Hafa þessar vélar meðal annars verið notaðar til þess að varpa sprengjum á andspyrnumenn í Sýrlandi. Á friðartímum hafa þessar vélar verið notaðar til þess að senda óvinum Rússlands skilaboð.

Ekki er óalgengt að rússneskar herflugvélar fari um norðurslóðir og sé vikið burt áður en þær koma að lofthelgi NATO-ríkja. Sú leið sem sprengjuvélarnar fóru er hins vegar talin óvanaleg, eins og verið væri að prófa nýja flugleið til hernaðar í átt að Íslandi.

„Þetta gætu hafa verið skilaboð gagnvart loftrýmisgæsluverkefninu á Íslandi,“ segir Hans Kristensen, sérfræðingur í kjarnorkumálum hjá hugveitunni FAS í Bandaríkjunum við Forbes. FAS var stofnað af vísindamönnum sem komu að gerð fyrstu kjarnorkusprengjunnar árið 1945 en hlutverk þess er að stuðla að heimsöryggi fyrir kjarnorkuvopnum.

Ef út brytist stríð milli stórveldanna er talið að GIUK-hliðið svokallaða, milli Grænlands, Íslands og Bretlands, yrði átakapunktur og skotmark rússneskra sprengjuflugvéla. Bandarískar sprengjuflugvélar, staðstettar á Íslandi, geta ógnað rússneskum skotmörkum, til að mynda höfnum. „Þetta gerir Ísland að mikilvægu skotmarki fyrir rússneska flugherinn,“ segir Kristensen.

Þetta gætu hafa verið skilaboð gagnvart loftrýmisgæsluverkefninu á Íslandi.

Rússnesku vélarnar tvær flugu frá herstöð í borginni Engels í vesturhluta Rússlands norður í Íshaf. Þaðan vestur til Svalbarða og suður yfir Noregshaf. Tvær orrustuþotur norska flughersins, af gerðinni F-16, flugu þangað og beindu þeim af leið. Héldu þær þá austur og aftur til Engels.

Joe Biden, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, gerði Vladímír Pútin Rússlandsforseta það ljóst að stefna Bandaríkjanna gagnvart Rússlandi væri breytt. Rússar myndu ekki lengur fá að vaða uppi eins og í stjórnartíð forvera hans.

Æfingarnar í Noregi eru til marks um þetta og Rússar hafa mótmælt þeim harðlega. Í æfingunni munu stórar, bandarískar sprengjuvélar, af gerðinni B-1, æfa með norskum vélum af gerðinni, F-35.

„Við fylgjumst áhyggjufull með hvernig Noregur leyfir háskaleik útlendinga á eigin landsvæði,“ segir í yfirlýsingu rússneska sendiráðsins í Noregi. „Við erum sannfærð um að það séu engin vandamál í Evrópu sem réttlæti komu bandarískra sprengjuflugvéla.“