Tveimur götum hefur verið lokað og sprengjusveit ríkislögreglustjóra kölluð út eftir að torkennilegur hlutur fannst við leikskólann Drafnarstein við Ránargötu í Vesturbæ Reykjavíkur.

Ásgeir Þór Ásgeirsson, hjá aðgerðar- og skipulagsdeild lögreglunnar, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið.

Lögreglumaður á vettvangi segir að hluturinn verði fluttur af vettvangi.

Sprengjusveitin fjarlægir hlutinn.
Fréttablaðið/Anton Brink

Ásgeir segir að málið sé í hefðbundnum farvegi. Lögreglan hefur lokað tveimur götum og eru sérfræðingar á vettvangi að meta stöðuna.

„Lögreglumenn eru á vettvangi að meta aðstæður. Ekki verður farið í rýmingu ef svæðið er nægjanlegt fyrir aðgerðirnar,“ segir Ásgeir.

Ásgeir segir að aldrei hafi verið um sprengjuhótun að ræða. Leikskólastjóri vill ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

Lögreglan er á vettvangi.
Fréttablaðið/Anton Brink

Torkennilegum hlut eytt á Suðurlandi

Þetta er í annað sinn í vikunni sem lögregla hefur þurft að bregðast við ábendingum um torkennilegan hlut.

Lögreglan á Suðurlandi eyddi í gær hlut sem fannst við Vallaskóla á Selfossi. Um var að ræða heimatilbúna sprengju

Garðar Már Garðars­son aðalvarð­stjóri hjá lögreglustjóranum á Suður­landi, sagði það gríðar­lega al­var­legt mál að börn og ung­menni búi til heimatilbúnar sprengjur og að þær séu skildar eftir við skóla og annars staðar á Selfossi.

Lög­reglan að sunnan er í samstarfi við skóla og leita eftir því að verslunar­eig­endur setji ein­hvers konar hömlur á það að ung­menni geti nálgast þann efni­við sem hægt er að fá í verslunum í sprengju.