Sprengjum sem var kastað í nótt á hús í bæði Hafnar­firði og Foss­vogi tengjast báðar á­rásinni á Banka­stræti Club fyrir tæpri viku síðan. Það stað­festir Margeir Sveins­son að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn í sam­tali við Frétta­blaðið.

Í­búar voru heima þega sprengjunum var kastað inn um glugga um eitt­leytið í nótt en engann sakaði.

Hann segir að lög­reglan hafi náð þokka­lega utan um á­rásina sjálfa en að enn sé tveggja eða þriggja á­rásar­manna leitað. Þá segir hann lög­reglu nú reyna að ná utan um bæði að­draganda á­rásarinnar og það sem hefur fylgt í kjöl­farið.

„Þetta tengist þessu máli sem við erum búin að dekka og við erum búin að vera að tala um að við óttumst að þetta sé að fara lengra,“ segir Margeir en á­líka sprengjum var kastað um helgina í hús í tengslum við á­rásina.

Þriggja enn leitað

Margeir segir að enginn hafi verið hand­tekinn í nótt en að unnið sé að því að finna þá sem stóðu að þessu og þá sem enn er leitað í tengslum við stungu­á­rásina á Banka­stræti Club.

Það bætist enda­laust við, að því er virðist, í þessu máli.

„Já, maður óttast hvert þetta er að fara.“

Í gær var í fjöl­miðlum birt mynd­skeið af stungu­á­rásinni inni á Banka­stræti Club. Margeir segir það mjög al­var­legt að það hafi gerst og segir það til skoðunar hjá lög­reglunni.