„Það var mitt mesta lán að hafa mætt svona snemma í vinnuna,“ segir Steinn Jóhannsson, rektor MH, sem í morgun fékk sprengjuhótun í tölvupósti.

Hótunin barst um miðja nóttina, klukkan 03:58 á skrifstofu skólans. Tölvupósturinn var á ensku og barst erlendis frá að sögn rektors og lögreglu.

Fyrsti starfsmaður mætti klukkan 06:45 og svo mætti Steinn klukkan 07:20 og sá póstinn strax og setti í gangi viðbragðsáætlun. Til allrar lukku voru engir nemendur mættir í skólann þar sem kennsla átti að hefjast 08:10 en þrír starfsmenn voru mættir í hús, tæknistjórinn Kent Lárus Björnsson ásamt rektor og stærðfræðikennara. Fengu nemendur tölvupóst undir eins um að kennslu hafi verið seinkað.

„Á meðan Kent var að loka byggingunni hringdi ég í yfirvöld og fékk samband við Ríkislögreglustjóra og var sérsveitin mætt innan tíu mínútna,“ segir Steinn í samtali við Fréttablaðið.

Sérsveitin fór þá yfir húsnæðið í leit að mögulegum sprengjubúnaði undir leiðsögn skólastjórnenda en fann ekkert. „Skólinn er lokaður yfir nóttina og það er viðvörunarkerfi sem hefði farið af stað hefði einhver óboðinn komist inn í húsnæðið,“ útskýrir Steinn.

Aðspurður segir hann skrýtið að sjá sérsveitarmenn ganga um skólagangana þar sem nemendur hefðu annars verið á rölti fyrir kennslu. Aðgerðirnar voru umfangsmiklar og var öllum bílastæðum lokað í grennd við skólann til þess svo enginn færi sér að voða í nálægð við bygginguna.

Fyrir utan MH í morgun.
Fréttablaðið/Anton Brink

Steinn tók við af Lárusi H. Bjarnasyni, eða Lalla rektor eins og hann var kallaður, árið 2018 og hefur því verið ansi viðburðarrík fyrstu ár fyrir þennan nýja rektor.

„Við erum bæði búin að lenda í COVID og fá sprengjuhótun. En við brugðumst við í samræmi við viðbragðsáætlun skólans og það vill svo til að mennta- og menningarmálaráðuneytið er nýbúið að gefa út sniðmót að viðbragðsáætlun við hryðjuverkavá. Borgarholtsskóli brást hárrétt við eftir atvikið í janúar þannig að skólasamfélagið er vel undirbúið undir alls konar,“ segir Steinn.

Er þetta merki um einhverja óhugnanleg þróun?

„Sprengjuhótun er alltaf alvarleg og auðvitað var mér brugðið þegar ég settist niður og las þennan póst. Maður vonaði strax að þetta væri bara gabb og svo reyndist þetta ekki vera á rökum reist.“

Skólastjórnendur og kennarar munu fara yfir málið með nemendum síðar í dag.

Steinn Jóhannsson tók við af Lalla rektor árið 2018.
Fréttablaðið/Anton Brink

Lögreglan sagði í tilkynningu í morgun að fleiri tilkynningar um sprengjuhótanir hafi borist í morgun og hefur verið gripið til aðgerða vegna þessa hjá þremur öðrum stofnunum, auk Menntaskólans við Hamrahlíð. Lögreglan telur sig vita hver stendur að baki þessum hótunum.