Sprengjuhótun barst Menntaskólanum við Hamrahlíð í nótt í gegnum tölvupóst.

Lögregla mætti á vettvang um leið og tilkynnt var um málið og gripið var til viðeigandi ráðstafana, sem miðuðu að því að leita af sér allan grun. Sérsveit ríkislögreglustjóra kom á vettvang ásamt sprengjuleitarsveit Landhelgisgæslunnar.

Nemendur skólans fengu skilaboð frá rektor í morgun um að kennsla yrði felld niður fram að hádegi.

Kennsla var felld niður fram að hádegi en skólahald fer fram með eðlilegum hætti eftir hádegi.
Fréttablaðið/Ingunn Lára Kristjánsdóttir

Fréttastofa RÚV greindi fyrst frá í morgun en samkvæmt heimildum þeirra fannst vafasamur hlutur fyrir utan skólann sem reyndist skaðlaus.

Aðgerðum á vettvangi er nú lokið og hafa skólastjórnendur verið upplýstir.

Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að lögreglan telji sig vita hver stendur að baki hótuninni, en sá er staddur erlendis og hefur áður haft í hótunum með þessum hætti. Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Fréttin var uppfærð klukkan 09:00.

Auðir gangar klukkan níu í morgun eftir að kennsla var látin falla niður.
Fréttablaðið/Ingunn Lára