Minnst 25 hafa látist í flóðum í Henan héraði um mið­bik Kína og ríf­lega 1,2 milljón manns hafa þurft að flýja heimili sín. Kín­verski herinn sprengdi stíflu í gær­kvöld í von um að létta á flóðunum, segir í frétt frá AP. Búið er að flytja um tvö hundruð þúsund manns í skjól.

Sam­kvæmt kín­verska miðlinum South China Morning Post eru þetta mestu rigningar sem hafa sést á svæðinu í tugi ára og jafn­vel lengur. Vegna flóðanna hefur fjöldi fólks lokast inni í lestar­stöðvum, skólum, í­búðum og skrif­stofum. Að minnsta kosti sjö er saknað.

Í kringum tíu þúsund far­þegar hafa þurft að bíða í stoppuðum lestum, sumir í meira en fjöru­tíu klukku­stundir. Fjöldi vega hafa lokast vegna flóðanna sem tóku með sér bíla og flæddu inn í hús.

Rigningarnar byrjuðu í seinustu viku og á þriðju­dag varð raf­magns­laust í höfuð­borg héraðsins, Z­hengz­hou, auk þess sem að­gangur að vatns­birgðum rofnaði.

Flytja þurfti minnst sex hundruð sjúk­linga úr sjúkra­húsi í Z­hengz­hou eftir að raf­magnið sló út. Starfs­fólk þurfti að blása súr­efni hand­virkt með súr­efnispumpum handa fólki sem var í öndunar­vélum.