Hluturinn sem fannst í ruslagámi við Mánatún síðastliðna nótt er sprengja af einhverju tagi. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.

Sendiherrabústaður Bandaríkjanna er í næsta húsi við gáminn sem geymdi sprengjuna en lögreglan hefur ekki viljað svara því hvort talið sé að sprengjan hafi verið ætluð sendiherranum eða beinst gegn sendiráðinu. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur þó verið fundað í stjórnkerfinu í dag vegna mögulegra tengsla málsins við sendiherrabústaðinn.

Fréttablaðið greindi frá því í dag að sérsveit ríkislögreglustjóra hefði verið kölluð út vegna málsins og var lögregla á vettvangi með talsverðan viðbúnað sem stóð yfir í nokkrar klukkustundir.

Þrír voru handteknir vegna málsins í gærmorgun en lögregla hefur ekki viljað veita upplýsingar um hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir þeim.

Íbúar í hverfinu, sem Fréttablaðið ræddi við, sögðust ekki hafa orðið fyrir sérstakri truflun vegna viðbúnaðar lögreglu í hverfinu.

Rannsókn málsins er enn á frumstigi að sögn Gunnars Rúnars Sveinbjörnssonar, kynningarfulltrúalögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Ég get ekki tjáð mig neitt frekar,“ segir Gunnar Rúnar, spurður hvort krafist verði gæsluvarðhalds yfir hinum handteknu.