Fréttastofa AP ásamt heimildum innan bandaríska hersins hafa greint frá því að eldflaug sem sprakk í pólska bænum Przewodów skammt frá landamærum Úkraínu hafi komið frá úkraínsku loftvarnakerfi. Eldflaugunum hafi verið ætlað að mæta þeim rússnesku, en Rússar hafa skotið eldflaugum víða um Úkraínu seinustu daga.

Flugskeytum hafði meðal annars verið beint að Kænugarði, Lvív og Karkív og eru einnig fregnir af því að rússnesk eldflaug hafi hæft Moldóvu og valdið stórfelldu rafmagnsleysi.

Árásirnar voru þær fyrstu síðan Úkraínumenn náðu stjórn á borginni Kherson í suðurhluta landsins. Úkraínsk yfirvöld telja að árásirnar tengist einnig ávarpi Volodímírs Zelenskíjs á G20-ráðstefnunni þar sem hann sagði að það væri kominn tími til að stríðinu myndi ljúka.

Eftir sprenginguna fóru vangaveltur fljótlega af stað um hvort þetta gæti hafi verið rússnesk eldflaug sem rataði af leið, en Pólland er aðildarríki NATO og er árás á eitt eða fleiri aðildarríki bandalagsins túlkað sem árás á þau öll.

Skömmu eftir að greint hafði verið frá sprengingunni virkjuðu pólsk yfirvöld fjórðu grein NATO-sáttmálans. En sú grein kallar á sameiginlegan fund allra aðildarríkja ef öryggi eins ríkis innan bandalagsins er ógnað. Fimmta grein sáttmálans lýsir því yfir að árás á eitt bandalagsríki hafi átt sér stað og hefur sú grein aðeins verið virkjuð einu sinni af hálfu bandarísku ríkisstjórnarinnar í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar 11. september.

Fréttablaðið/Graphic News

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir að ekkert bendi til þess að Rússar séu að undirbúa hernaðaraðgerðir gegn ríkjum NATO. Á blaðamannafundi ítrekaði hann að þrátt fyrir að eldflaugin sem lenti í austurhluta Póllands hefði líklegast komið frá úkraínsku loftvarnakerfi, þá lægi ábyrgðin alfarið hjá Mosku.

„Höfum eitt á hreinu, þetta er ekki Úkraínu að kenna. Rússar bera endanlega ábyrgð þegar þeir halda áfram ólöglegu stríði sínu gegn Úkraínu,“ segir Stoltenberg.

Forseti Póllands segir að ekkert bendi til þess að þetta hafi verið viljandi árás gegn Póllandi og voru rússnesk stjórnvöld fljót að neita allri sök. Neyðarfundir voru engu að síður haldnir hjá aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins og í þjóðaröryggisráði Póllands.

Dmítrí Peskov, talsmaður rússnesku ríkisstjórnarinnar, sakar vestræn ríki um taugaveiklun og segir að yfirvöld í Varsjá hefðu strax átt að benda á að úkraínska loftvarnakerfið væri sökudólgurinn. Bæði Rússland og Úkraína notast við gömul sovésk loftvarnakerfi og þar á meðal hið umrædda S-300 loftvarnaeldflaugakerfi.