Marwan Ab­boud, ríkis­stjóri Beirut, til­kynnti í dag að yfir 200 manns hefðu látist af völdum sprengingar sem varð við hafnar­svæði Beirut í síðast­liðinni viku. Hann greindi einnig frá því að fjölda fólks væri enn saknað, þar væru er­lendir iðnaðar­menn í meiri­hluta.

Herinn hefur hætt björgunar­að­gerðum en haldið verður á­fram að leita af fólki í rústunum á hafnar­svæðinu.

Mót­mæla spillingu

Sprengingin varð þegar eldur kom að gríðar­legu magni af ammoníum­nítrati sem geymt var á hafnar­svæði borgarinnar. For­seti Líbanons, Michael Aoun, sagði 2.750 tonn af efninu hafa verið geymd í vöru­húsi við höfnina og að hús­næðið hafi ekki verið öruggt.

Al­menningur kennir spilltum stjórn­völdum um sprenginguna og segir yfir­völd hafa vitað af efninu í ó­tryggu hús­næðinu án þess að bregðast við. Daginn eftir sprenginguna til­kynnti ríkis­stjórn Líbanons að fjöldi hafnar­full­trúa á svæðinu hefði verið settur í stofu­fangelsi þar til rann­sókn á sprengingunni hæfist.

Mót­mæli hafa sett svip sinn á borgina síðan sprengingin varð og hafa af­sagnir þing­manna gert lítið til að róa á­standið.

Hundruð þúsunda búa nú í mikið skemmdum húsum, margir hverjir án dyra og glugga. Yfir 300 þúsund heimili urðu fyrir á­hrifum sprengingarinnar og voru mörg þeirra lögð í rúst.