Heilbrigðisráðherra Hollands, Hugo de Jonge, var harðorður í garð þeirra sem sprengdu rörasprengju utan við skimunarstöð í bænum Bovenkarspel í gær.

„Í rúmlega ár höfum við þurft að reiða okkur á framlínufólkið okkar og þetta eru viðbrögðin. Brjálæði,“ sagði Jonge.

Skimunarstöðin í Bovenkarspel hefur tekið á móti allt að 800 einstaklingum á dag. Enginn meiddist í sprengingunni sem varð rétt fyrir sjö um morguninn.

Stutt er síðan skimunarstöð í Hollandi var brennd til kaldra kola í mótmælum aðgerðasinna gegn takmörkunum stjórnvalda.