„Salan hefur tekið mikinn kipp, hún hefur þrefaldast á ferðum hjá okkur á síðustu tveimur vikum,“ segir Tómas Gestsson, forstjóri Heimsferða.

Eftir að aflétting Covid-takmarkana hófst víða um heim hafa ferðaskrifstofur hér á landi fundið fyrir stórauknum bókunum og margföldum ferðavilja Íslendinga út fyrir landsteinana. Tómas segir að bæði sé sótt mikið í sól og skíði. Tvær síðustu vikur hafi verið mjög mikið um bókanir. Sé nú svo komið að ferðir sem farnar verða á sama tíma og vetrarfrí grunnskólabarna stendur yfir séu nálægt því að vera uppseldar.

„Það er greinilegt að þessar afléttingar hafa mikil áhrif,“ segir Tómas.

Þá sé mikið um bókanir fyrir vorið og sumarið fram undan og hafa starfsmenn annarra ferðaskrifstofa svipaða sögu að segja.

Viðsnúningurinn er sagður sérlega ánægjulegur í því ljósi að áður hafa flugfélög og ferðaskrifstofur margoft þurft að aflýsa ferðum eftir að Covid kom upp. Þannig greindi Fréttablaðið frá því að Heimsferðir og Vita aflýstu síðast í haust nokkrum ferðum til Malaga og Alicante og hefur ferðaframboð eftir Covid þó aðeins verið hluti þess sem hefði getað orðið án faraldurs og margvíslegra takmarkana.

Mörg smit greinast enn daglega á Íslandi. Fólk sem starfar í ferðaþjónustu segist hafa þá tilfinningu að þótt bókanir séu nú orðnar líflegar á ný eftir magra tíma haldi margir enn að sér höndum. Von gæti verið á enn frekari bókanabylgju innan nokkurra vikna.

Utanferðir fjölda Íslendinga hafa legið niðri í tvö ár vegna faraldursins. Deilur hafa komið upp um endurgreiðslu og ferðaskilmála. Segir fólk í greininni viðbúið að fyrst þegar faraldurinn verður horfinn úr sögunni sem ógn taki landsmenn flugið sem aldrei fyrr.

„Við vonum að það sé bjart fram undan,“ segir Tómas Gestsson.

Meðal þess heitasta þessa dagana eru skíðaferðir til Evrópulanda auk þess sem sólarstrendur laða marga að, ekki síst til Kanarí og Tenerife.