Höfuðljós seljast nú eins og heitar lummur, það sama má segja um göngustafi. Fréttablaðið var við eldgosið í Meradölum í fyrrinótt þegar metumferð var við eldstöðvarnar. Langflestir voru þannig búnir að til fyrirmyndar getur talist og mikil gleði ráðandi hjá fólki.

Fréttir af illa búnu fólki sem þarf aðstoð hafa verið nokkuð áberandi undanfarið. Langflestir ferðalangar virðast þó undirbúa gönguna löngu vel. Talið er að 8.000 til 9.000 manns hafi séð eldgosið í fyrradag og kaus allstór hluti þess hóps að njóta sjónarspils eldanna í dimmunni. Samkvæmt talningu Fréttablaðsins brúkuðu um þrír af hverjum fjórum höfuðljós á göngu sinni til baka í fyrrinótt.

Vísbendingar eru um að sala á höfuðljósum hlaupi á þúsundum undanfarið. „Gærdagurinn var svaka sprengja,“ segir Arinbjörn Hauksson, markaðsstjóri hjá Elko. Þar á bæ hafa starfsmenn síðustu daga vart haft undan að stilla út höfuðljósum sem rjúka út eins og heitar lummur.

Arinbjörn segir að í síðasta eldgosi í fyrra hafi einnig orðið mjög mikil söluaukning. „Við búumst við að sala á höfuðljósum haldi áfram að aukast næstu daga eða vikur. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að fólk búi sig vel ef það fer að gosinu í rökkri eða myrkri,“ segir Arinbjörn.

Arinbjörn segir starfsmenn höfuðljósin rjúka út hjá Elko.
Mynd/Aðsend

Ódýrustu höfuðljós eru að jafnaði undir fimm þúsund krónum. Þótt fólk fjárfesti sérstaklega fyrir gosgönguna geta ljósin nýst áfram í kvöldgöngum eða annarri útivist þegar fer að dimma að sögn Arinbjarnar.

Haraldur Gunnarsson, rekstrarstjóri Ellingsen, segist finna fyrir mjög mikilli aukningu í sölu á ljósum og öðrum búnaði sem tengist ferðum að eldgosinu.

„Við seldum gríðarlegt magn af ljósum fyrir síðasta gos. Höfuðljós og göngustafir rjúka út núna og svo fer að líða að því að broddarnir rjúki út,“ segir Haraldur.

Haraldur varar við hættum sem frostið kann að skapa.

Með því á Haraldur við að með haustinu þegar frystir gætu skapast varasamar aðstæður fyrir göngugarpa.

„Við seldum ógrynni af svona búnaði fyrir síðasta gos, sérstaklega af broddum fyrir Bröttubrekku, þar sem nú er reyndar búið að gera úrbætur fyrir göngufólk,“ segir Haraldur.

Þeir sem selja útivistarvörur brýna landsmenn til að fara ekki upp að gosinu í rökkri án þess að vera með góð ljós, vera á góðum skóm og jafnvel í ullarfatnaði innst. Margir gestir eldgossins í fyrrinótt fundu fyrir miklum breytingum á hitastigi frá degi til nætur.