Að minnsta kosti þrír eru látnir eftir sprengingu í íbúðarhúsnæði í Madríd, höfuðborg Spánar.

Mynd­bönd og myndir eru að berast frá Puerta de To­ledo hverfinu sem sýna mikla eyði­leggingu. Bygging í hverfinu virðist gjöreyðilögð og eru rústir um allar götur í kring. Fólk sést vafra um hverfið og sírenuhljóð heyrast úr fjarlægð.

Spænskir fjölmiðlar segja líklegustu orsökina gassprengingu. Fjölmargir á samfélagsmiðlum halda því fram að húsið sem sprengingin var í sé elliheimili.

Almannavarnir í Madrid hafa beðið fólk um að halda sig frá svæðinu svo viðbragðsaðilar komist að.

Ekki er vitað að svo stöddu hversu margir eru slasaðir. Borgaraþjónustan býr ekki yfir upplýsingum um hvort einhverjir Íslendingar hafi slasast en verið er að safna upplýsingum.

Hjúkrunarheimili og skóli við hlið hússins

Byggingin sem sprengingin varð í er sögð vera á Toledo stræti í miðbæ höfuðborgarinnar en við hlið hennar er meðal annars skóli og hjúkrunarheimili.

Sam­kvæmt AP-frétta­veitunni eru lög­regla, sjúkra­bílar og slökkvi­lið mætt á svæðið. AP hefur eftir Leira Reparaz sem býr á svæðinu, að mikill hvellur hafi ómað um hverfið þegar sprengingin varð.

„Við heyrðum ekki ná­kvæm­lega hvaðan hvellurinn kom. Við héldum fyrst þetta kæmi frá skólanum,“ segir Leira í samtali við AP.

Hér að neðan má sjá myndir og myndbönd af eyðileggingunni í Madríd.


Fréttin var uppfærð klukkan 15:00