Fjórir voru fluttir á sjúkrahús, alvarlega slasaðir, eftir að tvær íbúðabyggingar hrundu að hluta nærri miðborg Vínar í Austurríki á fimmta tímanum nú síðdegis.

Lögregluyfirvöld telja að sprengingin hafi orðið í gaskerfi húsanna en þrjár til fjórar hæðir bygginganna hrundu. Myndband var birt af sprengingunni á netinu en það hefur verið fjarlægt af virðingu við hina slösuðu og ættingja þeirra.

„Þetta var sem sprengju hefði verið kastað í framhlið hússins,“ sagði talsmaður slökkviliðsins í Vín í samtali við Reuters-fréttastofuna. Auk hinna fjögurra, sem eru alvarlega slasaðir, eru einhverjir sem glíma við minniháttar meiðsli.

Þetta segir talsmaður sjúkraflutningamanna í borginni en talsmaður slökkviliðsins segir að ekki sé hægt að útiloka að einhverjir hafi látist í sprengingunni að svo stöddu.