Séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út á sjötta tímanum í gær að beiðni lögreglunnar vegna sprengikúlu úr seinna stríði sem fannst við línuveg á Sandskeiði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Sprengikúlan lá undir þremur háspennulínum sem liggja til höfuðborgarsvæðisins.

„Vegna staðsetningar sprengikúlunnar þótti öruggast að færa hana úr stað til að koma í veg fyrir tjón á háspennilínunum. Þegar virk sprengikúla er færð úr stað er mikilvægt að það sé gert af þrautþjálfuðum sprengjusérfræðingum sem hafa sérhæfðan búnað til verksins. "

Óskað var eftir sjúkrabíl frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu af öryggisástæðum, en það alltaf gert ef færa þarf sprengju sem þessa. Sprengikúlan var færð á öruggan stað og sprengd í kjölfarið.

Eyðing sprengikúlunnar gekk vel líkt og samstarf Landhelgisgæslunnar, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins að því er fram kemur í tilkynningu.

Samstarf Landhelgisgæslunnar, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins gekk vel.
Ljósmynd/Landhelgisgæslan