„Þetta er klárlega búið að valda nýjum ótta,“ segir Jóna Þórey Pétursdóttir, nemandi í Edinborgarháskóla, um fjölda tilfella þar sem konur hafa verið sprautaðar með nauðgunarlyfjum í Bretlandi.

Undanfarið hefur borið mikið á því á skemmtistöðum í Bretlandi að konur, og í einhverjum tilfellum karlar, séu sprautaðir með lyfjum í stað þess að þau séu sett í glösin eins og áður hefur tíðkast.

„Þetta virðist vera færast í aukana frá því að við fréttum að þessu fyrst,“ segir Jóna Þórey. Fólk hafi orðið vart við sprautuárásirnar fyrir nokkrum mánuðum en eftir að skólar hófust á ný hafi þetta færst í aukana.

Jóna Þórey segir árásirnar búnar að taka yfir umræðuna hjá skólafélögum sínum og einnig í femínistafélaginu þar sem hún situr í stjórn. Þetta sé stærsta verkefnið sé félagið sé að vinna í núna, hafa samband við klúbba og skemmtistaði til að vekja athygli á því sem er í gangi.

Hins vegar hafi það ekki gengið nægilega vel því þeir vilji ekki tapa viðskiptavinum. Það hafi því verið gripið til þess ráðs að sniðganga skemmtistaði viðsvegar um landið. Í kvöld séu konur að sniðganga skemmtistaði í Edinborg þar sem Jóna Þórey býr. Hún segir það gert til þess að ýta harðar að skemmtistöðum að taka á málunum, efla öryggisgæslu og fræðslu starfsmanna og jafnvel leita í töskum við dyrnar.

Aðspurð hvort hún sé hrædd segir Jóna Þórey að sér líði ekki eins og á Íslandi, „en ég myndi ekki lýsa því þannig að ég sé hrædd.“ Hún sé þó klárlega í öðrum aðstæðum og að hún búi við nýjan raunveruleika.

„Ég er vissulega varari um mig eftir að þetta kom upp heldur en ég bjóst við að ég þyrfti að vera,“ segir Jóna Þórey.

Sjálf býr hún á stúdentagörðum og að þeir hafi brugðist hratt við með því að senda öryggisleiðbeiningar og upplýsingar um hvaða bjargræði væru í boði lendi fólk í þessum árásum.