Spotify vinnur nú að því að fjarlægja tónlist Neil Young af streymisveitunni eftir að sænski tónlistarrisinn hafnaði kröfu rokkarans um að fjarlægja hlaðvarpið The Joe Rogan Experience úr gagnabönkum sínum.
Young hefur harðlega gagnrýnt Joe Rogan, sem er þekktasti hlaðvarpsstjórnandi heims, fyrir að dreifa misvísandi upplýsingum um bólusetningar í þætti sínum sem er gefinn út af Spotify. Hann birti opið bréf í vikunni á heimasíðu sinni stílað á umboðsmann sinn og plötufyrirtæki þar sem hann gagnrýndi stefnu Spotify harðlega og sagði meðal annars „Þeir geta fengið Rogan eða Young. Ekki báða.“
The Joe Rogan Experience er vinsælasta hlaðvarpið á Spotify í dag en árið 2020 gerði Rogan 100 milljón dollara samning við streymisveituna um einkarétt á birtingu þess.
Talsmaður Spotify staðfesti í gær við the Hollywood Reporter að fyrirtækið ynni nú að því að fjarlægja tónlist Neil Young af streymisveitunni. Þetta sést glöggt ef leitað er að Neil Young á Spotify en þar er aðeins eina plötu að finna, tónleikaplötuna Paris 1989, á meðan allar hans þekktustu plötur svo sem Harvest og After the Gold Rush eru fjarri góðu gamni.

„Við hörmum ákvörðun Neils um að fjarlægja tónlist hans af Spotify en vonumst eftir því að bjóða hann velkominn aftur bráðum,“ sagði talsmaður Spotify.
Í kjölfar ákvörðunarinnar um að láta fjarlægja tónlistina birti Young ný skilaboð á vefsíðu sinni þar sem hann lýsti Spotify sem „heimili lífshættulegra Covid falsfrétta“ og sakaði streymisveituna um að „selja lygar fyrir peninga“. Að sögn Young tók hann ákvörðunina vegna áhyggja sinna um að Spotify væri að spilla ungu og áhrifagjörnu fólki með dreifingu misvísandi upplýsinga og falsfrétta.
Ýmsir aðilar hafa gagnrýnt ákvörðun Youngs og bent á það að hann hafi ekki lengur ákvörðunarrétt yfir stórum hluta tónlistar sinnar eftir að hann seldi 50 prósent af útgáfuréttinum til plötufyrirtækisins Hipgnosis í janúar 2021. Young viðurkenndi að hann væri meðvitaður um þetta en sagði plötufyrirtæki sitt Reprise, sem er í eigu Warner Music Group, hafa veitt leyfi fyrir gjörningnum.
„Ég þakka Warner Brothers fyrir standa við bakið á mér og taka skellinn – að missa 60 prósent af alþjóðlegum streymistekjum mínum í nafni sannleikans,“ skrifaði Young og hvatti aðdáendur sína til að nálgast tónlist hans á öðrum streymisveitum á borð við Apple Music og Amazon Music í staðinn.