Spoti­fy vinnur nú að því að fjar­lægja tón­list Neil Young af streymis­veitunni eftir að sænski tón­listar­risinn hafnaði kröfu rokkarans um að fjar­lægja hlað­varpið The Joe Rogan Experience úr gagna­bönkum sínum.

Young hefur harð­lega gagn­rýnt Joe Rogan, sem er þekktasti hlað­varps­stjórnandi heims, fyrir að dreifa mis­vísandi upp­lýsingum um bólu­setningar í þætti sínum sem er gefinn út af Spotify. Hann birti opið bréf í vikunni á heima­síðu sinni stílað á um­boðs­mann sinn og plötu­fyrir­tæki þar sem hann gagn­rýndi stefnu Spoti­fy harð­lega og sagði meðal annars „Þeir geta fengið Rogan eða Young. Ekki báða.“

The Joe Rogan Experience er vin­sælasta hlað­varpið á Spoti­fy í dag en árið 2020 gerði Rogan 100 milljón dollara samning við streymis­veituna um einkarétt á birtingu þess.

Tals­maður Spoti­fy stað­festi í gær við the Hollywood Reporter að fyrir­tækið ynni nú að því að fjar­lægja tón­list Neil Young af streymis­veitunni. Þetta sést glöggt ef leitað er að Neil Young á Spoti­fy en þar er að­eins eina plötu að finna, tón­leika­plötuna Paris 1989, á meðan allar hans þekktustu plötur svo sem Harvest og After the Gold Rush eru fjarri góðu gamni.

Allar helstu plötur Neil Young eru nú óaðgengilegar á Spotify.
Skjáskot/Spotify

„Við hörmum á­kvörðun Neils um að fjar­lægja tón­list hans af Spoti­fy en vonumst eftir því að bjóða hann vel­kominn aftur bráðum,“ sagði tals­maður Spoti­fy.

Í kjöl­far á­kvörðunarinnar um að láta fjar­lægja tón­listina birti Young ný skila­boð á vef­síðu sinni þar sem hann lýsti Spoti­fy sem „heimili lífs­hættu­legra Co­vid fals­frétta“ og sakaði streymis­veituna um að „selja lygar fyrir peninga“. Að sögn Young tók hann á­kvörðunina vegna á­hyggja sinna um að Spoti­fy væri að spilla ungu og á­hrifa­gjörnu fólki með dreifingu mis­vísandi upp­lýsinga og fals­frétta.

Ýmsir aðilar hafa gagn­rýnt á­kvörðun Youngs og bent á það að hann hafi ekki lengur á­kvörðunar­rétt yfir stórum hluta tón­listar sinnar eftir að hann seldi 50 prósent af út­gáfu­réttinum til plötu­fyrir­tækisins Hipgnosis í janúar 2021. Young viður­kenndi að hann væri með­vitaður um þetta en sagði plötu­fyrir­tæki sitt Reprise, sem er í eigu Warner Music Group, hafa veitt leyfi fyrir gjörningnum.

„Ég þakka Warner Brot­hers fyrir standa við bakið á mér og taka skellinn – að missa 60 prósent af al­þjóð­legum streymis­tekjum mínum í nafni sann­leikans,“ skrifaði Young og hvatti að­dá­endur sína til að nálgast tón­list hans á öðrum streymis­veitum á borð við App­le Music og Amazon Music í staðinn.