Bílar eru óðum að breytast í flóknar tölvur sem reiða sig á háþróaðan hugbúnað. Hugbúnaðinn er hægt að uppfæra úr miðlægri tölvu yfir líftíma bílsins. Þannig þróast bíllinn og breytist án þess að eigandinn þurfi að gera annað en setjast undir stýri og aka sína leið þegar honum hentar. Sem dæmi um það þá hefur Volkswagen nýverið kynnt uppfærslu á eldri ID. bílum sem opnar möguleikann á hraðari hleðslu rafhlöðunnar, eykur drægi bílanna auk þess sem hún kemur með úrbætur tengdar ábendingum frá eigendum ID. bíla.

ID.5 er nýjasta viðbótin við ID-fjölskylduna hjá Volkswagen. Fyrsti bíllinn í fjölskyldunni var ID.3, sem kom á markað haustið 2020 og í kjölfarið kom ID.4.

Allir bílarnir í ID-fjölskyldunni eru framleiddir með hlutlaust kolefnisspor (carbon neutral) sem þýðir að allir bílarnir eru afhentir frá verksmiðju án þess að hafa nokkurt kolefnisfótspor. Öll framleiðsla á þessum bílum er kolefnisjöfnuð og búið að huga að því á öllum stigum framleiðslunnar að lágmarka kolefnisspor. Hérlendis eru bílarnir drifnir hreinni íslenskri raforku og því er notkun bílsins einnig hlutlaus.

Allir ID. bílarnir frá Volkswagen eiga það sameiginlegt að vera hannaðir frá grunni sem rafmagnsbílar á nýjum MEB-grunni Volkswagen-samsteypunnar.

MEB-grunnurinn er sérstakur að því leyti að rafhlaðan liggur í botni bílsins og því nýtir hann plássið í innanrými mun betur en í hefðbundnum brennsluvélarbílum, þar sem mótorarnir og rafhlaðan sitja neðst í bílnum og þá er hægt að nýta allt plássið frá framstuðara til afturstuðara í innanrýminu, einnig svæðin sem áður hýstu vélina og drifskaftið.

Næsti bíll í ID. fjölskyldunni sem verður kynntur til leiks í haust er ID.Buzz sem er rafmögnuð nútímaleg útfærsla af gamla góða „Rúgbrauðinu“ sem allir þekkja.

ID.5 GTX helstu upplýsingar

ID.5 er sportlegri systurbíll ID.4 sem hefur notið vinsælda á Íslandi.

Afturhluti bílsins er með meira aflíðandi línu en ID.4 og hann er með GTX-útliti sem gefur honum enn sportlegra yfirbragð. Hann er með einkennandi LED-lýsingu í framstuðara, glæsilegum 20" felgum og svörtu þaki. Aðeins tekur um 30 mínútur að hlaða bílinn úr 5% upp í 80% í 170 kW hleðslustöð við bestu aðstæður samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda. Í hefðbundinni heimahleðslu (11 kW) er hleðslutími bílsins 7,5 klst. frá 0 upp í 100%. Uppgefið drægi samkvæmt WLTP-staðlinum er 512 km en raundrægi við íslenskar aðstæður er eins og hjá öllum rafmagnsbílum heldur minni en þessi Evrópustaðall gefur til kynna.

ID.5 GTX er fjórhjóladrifinn með tveimur rafmótorum, öðrum að framan og hinum að aftan, sem samanlagt skila bílnum 300 hestöflum. Hröðun frá 0 upp í 100 km/klst. er 6,3 sek.

Hægt er að fá bílinn með dráttarbeisli en hann dregur allt að 1.200 kg. Bíllinn er sérlega rúmgóður og gott pláss er fyrir alla farþega og bílstjóra. Gólfið í bílnum er flatt, sem gerir það að verkum að mun þægilegra er að nota öll þrjú aftursætin. Sérlega gott fótapláss er í aftursætinu enda gerir MEB-grunnurinn það að verkum að hægt er að hafa langt hjólhaf sem skilar sér beint til farþega í aftursæti.

Þrátt fyrir að vera „kúpulaga“ með meira aflíðandi skott en ID.4 þá kemur það ekki niður á rými fyrir aftursætisfarþega. Nóg pláss er fyrir alla. Öllum ID. bílum fylgir hvort tveggja hleðslukapall fyrir hleðslustöðvar sem og svokallað neyðarhleðslutæki fyrir heimilisinnstungu þannig að ef þörf er á hleðslu er hægt að hlaða bílinn alls staðar þar sem fólk kemst í innstungu. ID.5 GTX fær 5 stjörnur í árekstrarprófunum NCAP en einnig er til staðar fjöldi aðstoðarkerfa eins og árekstravöktun með neyðarhemlun, akgreinavari, neyðarhringing í 112, bakkmyndavél og skynvæddur hraðastillir, en öll aðstoðarkerfin miða að því að tryggja öryggi hvort tveggja bílstjóra og farþega bílsins.

Allir ID. bílar eru nettengdir eins og fram hefur komið og er ID.5 kynntur með nýjasta hugbúnaðinum frá Volkswagen sem nefnist ID.Software 3.0. Hins vegar þurfa eigendur eldri ID. bifreiða ekki að örvænta því nýjasta útfærsla af hugbúnaðinum verður fljótlega send yfir í alla bíla með svokallaðri OTA-uppfærslu („over the air“) eins og fólk þekkir með farsímana sína.

Í stuttu máli er Volkswagen ID.5 stór og rúmgóður fjölskyldubíll sem dekrar við fjölskylduna á styttri og lengri vegalengdum. Hann hentar mjög vel hér á landi þar sem hann er fjórhjóladrifinn og lætur því ekki smá snjó og skafrenning tálma sér för.

ID.5 er stílhreinn og ætternið leynir ´ser ekki hvort sem er að framan eða aftan.
ID. línan frá Volkswagen er byggð á MEB rafbílaundirvagninum.
Næsti bíll úr ID. línunni verður ID.Buzz sem byggður er á gamla Rúgbrauðinu.
ID.5 er glæsilegur að innan.
Mikið rými og góð birta um stóran þakglugga.