Mörgum gestum Hagkaups í Skeifunni brá eflaust í brún í kvöld þegar þeir ætluðu í sakleysi sínu, eða að mati sumra í sekt sinni, að sækja sér kjötálegg í körfur sínar. Þar var þá mætt fyrir hið heimsþekkta grænkerapar, Natasha Katherine Cuculovski og Luca Padalini, en þau stóðu fyrir friðsamlegum mótmælum á neyslu kjötvara í versluninni í kvöld.

Parið hefur orðið heimsþekkt fyrir aðgerðir sínar í þágu dýra og plánetunnar.

Parið heldur úti YouTube-síðu og gefur út bækur með þeim tilgangi að hjálpa fólki, dýrum og plánetunni, með því að breiða út boðskap græningjanna. Einnig hafa þau staðið fyrir hinum ýmsu uppákomum til að vekja athygli fólks á þeim hörmulegu áhrifum sem neysla kjötvara hefur á umhverfið og auðvitað dýrin sjálf en þetta var í fyrsta skipti sem þau gera slíkt á Íslandi.

Ofbeldi ekki matur

Mættu þau þannig galvösk, en að eigin sögn nokkuð stressuð, inn í verslun Hagkaups í Skeifunni í kvöld, ásamt fríðu föruneyti, vopnuð skiltum sem á stóð „ofbeldi ekki matur“. Mótmælendurnir höfðu einnig sett svart teip fyrir munn sér og spiluðu óhljóð úr dýrum sem var verið að slátra úr upptökutæki.

Þá dreifðu þau miðum með upplýsingum um dökku hliðar kjötiðnaðarins til þeirra er vildu við þeim taka, sem voru þónokkrir, en uppátækið virtist vekja lukku meðal viðskiptavina verslunarinnar. Starfsfólk var þá ekki jafnsátt með gjörninginn og má í myndbandi sem parið deildi á Facebook-síðu sinni, sem ber yfirskriftina That Vegan Couple, heyra í starfsmanni biðja mótmælendur „vinsamlegast um að fara“.

„Við verðum bara í örfáar mínútur,“ segir Natasha þá við starfsmanninn. Og hún stóð við orð sín en mótmælin stóðu aðeins í um fimm mínútur áður en mótmælendurnir gengu í halarófu út úr búðinni, með skiltin á lofti. Þegar út var komið þakkar Luca þá þeim sem tóku þátt í aðgerðunum. „Þetta eru hugrakkir aðgerðarsinnar sem standa uppi gegn illri meðferð á dýrum.“

Hér að neðan má sjá myndbandið við færslu parsins:

Iceland's very FIRST disruption! We played the animals' screams and cries in the meat and dairy section of a supermarket in Reykjavik. Please share this to inspire more direct action for animals ✊ ➡️ Watch these videos to understand what direct action is and why it's necessary: https://www.youtube.com/watch?v=NWHqJpcgjk0&t=19s https://www.youtube.com/watch?v=DwjRdfibk7M&t=106s Direct Action Everywhere - DxE

Posted by That Vegan Couple on Monday, July 15, 2019