Ólafur M. Magnússon, fyrrverandi eigandi Mjólku og síðar Mjólkurbúsins Kú, segir Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn vera meðal hagsmunagæsluflokka sem standa vörð um einokun Mjólkursamsölunnar á Íslandi.

„Þegar Einar Guðfinnsson var ráðherra hefðu menn í Sóvétríkjunum dauðskammast sín fyrir að ganga ekki jafn langt og hann í ríkisvernd og forsjárhyggju til að koma veg fyrir að menn gætu haslað sér völl í þessu.“

Ólafur segir kerfið vera klikkað og leikinn ójafnan fyrir bændur sem þurfi að skuldsetja sig til að kaupa sér framleiðslurétt.

„Það er pólitísk ákvörðun tekin við ákveðið borð og sá sem hefur stýrt þessari sýn í mjólkuriðnaðinum er Þórólfur Gíslason í Skagafirði. Kaupfélagið fer inn í mjólkuriðnaðinn af miklu afli að kaupa upp kvóta í kringum landið sem keyrir upp kvótaverðið. Bændur þurfa að keppa við stór útgerðarfyrirtæki sem hafa aðgang að miklu fjármagni og svo eru bændur að reyna að kaupa sér framleiðslurétt.“

Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga, hefur löngum verið sagður einn valdamesti maðurinn á Íslandi.

Ólafur talar um upphaf Mjólku og segist hafa vera ofsóttur og líkir upplifun sinni við að eiga við mafíu. Sem dæmi nefnir hann hvernig pólitísku afli var beitt til að reyna að drepa niður starfsemi forvera Kjöríss.

„Pólitísku valdi var beitt til að tryggja að þau fengu ekki niðurgreiðslur á sínum afurðum og þau neyddust til að hætta að framleiða osta og fara að framleiða ís. En þá er niðurgreiðslu á smjörinu sem þau notuðu hætt. Þá enduðu þau á að framleiða ís úr jurtaolíu og þá var sett 57 prósenta álag á mjólkina og þau fengu bara að kaupa hana fullunna, gerilsneydda og fitusprengda, eins og að kaupa úr fernu.“

„Átti að skjóta okkur niður á fyrsta degi“

Hann lýsir upphafi Mjólku og hvernig Mjólkursamsalan brást við þegar Mjólka sendi sitt fyrsta brett af rjóma í Bónus. „Þá ákvað Mjólkursamsalan að setja á 20 prósenta tilboð um allt land sem stóð í hálfan mánuð. Það átti bara að skjóta okkur niður á fyrsta degi. Þeir fóru líka í harðar aðgerðir í búðunum og færðu vörur okkar á bak við,“ lýsir Ólafur.

Hann segir leikinn ójafnan. Mikill framleiðsluréttur sé sogaður til Skagafjarðar. „Á sama tíma og hið opinbera er beðið um leyfi og undanþágu frá Samkeppnislögum til að hagræða í mjólkuriðnaði og fengið opinbert fé til að úrelda of mikla fjárfestingu í framleiðslugetu í mjólkuriðnaði. Þannig er til dæmis mjólkurbúið í Borgarnesi úrelt með opinberu fé en á sama tíma er Kaupfélagið að byggja upp og stækka sitt og auka fjárfestingu.“

Bendir hann á að Ólafur Friðriksson, fyrrverandi kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga, hafi verið formaður verðlagsnefndar meðan hann sat í sautján stjórnum hjá Kaupfélagi Skagfirðinga. Það sé óboðlegt. „Þetta er ríkið í ríkinu.“

Hægt verður að fylgjast með viðtali Ólafs í Mannamáli klukkan 19:00 á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í kvöld.