Alma Björk Hafsteinsdóttir, sem sat í starfshóp um gerð skýrslu um spilafíkn, telur að rekstraraðilar spilakassa ætli ekki að gera neitt til að minnka starfsemi sína.
Skýrslan kom út í síðustu viku en aðeins formaðurinn, Sigurður Kári Kristjánsson, og einn starfsmaður, Árni Grétar Finnsson, skrifuðu undir hana. Tólf manns sem sátu í starfshópnum gátu ekki komið sér saman um tillögur. Þar á meðal fulltrúar frá happdrættisaðilum, sýslumanni og dómsmálaráðuneytinu. Alma sat fyrir Samtök áhugafólks um spilafíkn.
„Það sem þetta þýðir fyrir mig er að þetta staðfestir það sem við höfum haldið fram. Að rekstraraðilar spilakassa ætla ekki að gera neitt,“ segir Alma.
Að hennar mati séu rekstraraðilarnir ekki að hlusta á mikinn meirihluta þjóðarinnar sem sé mjög neikvæður gagnvart fjáröflun með spilakössum. Það hafi meðal annars komið fram í könnun Gallup.
„Það sem verra er, er að rekstraraðilar ætla ekki ekki að taka upp spilakort. Ef þeir hefðu ætlað að gera það þá væru þeir búnir að því,“ segir hún.
Í skýrslunni er meðal annars lagt til að innleidd verði notkun spilakorta að norrænni fyrirmynd, að komið verði lögum yfir ólöglega netspilun, að sérleyfishöfum verði heimilað að starfa á netinu, að eftirlit með markaðinum verði stóreflt, að komið verði á forvarnarsjóði og að leyfishafar efli samstarf á sviði forvarnar gegn spilafíkn.
Aðrir fulltrúar skiluðu séráliti, þar með talið 21 síðu séráliti sex fulltrúa rekstraraðila spilakassa sem lögðu mesta áherslu á að koma böndum á ólöglega netspilun og að tryggja að þau sjálf gætu starfað á netinu.
Þeir eru SÍBS, Getspá, DAS og Íslandsspil í eigu Háskóla Íslands, Rauða krossins og Landsbjargar.
Alma segir rekstraraðilana vilja stefna að því að leyfa fjárhættuspil og þar af leiðandi breyta samfélaginu.
„Þeir eru í rauninni að leggja til að gera breytingar á þessu umhverfi og vilja í rauninni lögleiða fjárhættuspil á Íslandi, vitandi það að þjóðir sem við berum okkur saman við er í mestu vandræðum með fjárhættuspil,“ segir hún. Með því séu rekstraraðilarnir ekki að sýna fordæmi né taka á þessum málum af ábyrgð. Þetta snúist fyrst og fremst um peninga.
„Með því að lesa skýrsluna og sérálit rekstraraðilanna þá skín það í gegn að þetta snýst bara um peningana,“ segir Alma og bendir á hið samfélagslega tap.
„Auðvitað eru þetta gríðarlegir fjármunir fyrir þá en kostnaðurinn fyrir okkur almennu borgarana er gríðarlega hár. Jafnvel eru fjölskyldur sem þurfa að borga með fjölskyldumeðlimum eða barni sínu.“
