Þjóðþekkt tónlistarfólk, skemmtikraftar og áhrifafólk í samfélaginu mun taka þátt í söfnun á vegum Rauða krossins sem snýr að því að fólk geti skráð sig sem mannvini Rauð krossins og styrkt með mánaðarlegu framlagi.

Alma Björk Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn, segir mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir öðrum fjáröflunarþáttum Rauða krossins, þá helst rekstri spilakassa.

Þú talar um spila­kassa sem eina hörðustu og skað­legustu leið í fjár­öflun, hvað áttu við með þessu?

„Spila­kassa­rekstur Rauða kross Ís­lands er í rauninni, ef við tökum fjár­hættu­spil þá eru spila­kassar, þrisvar til fjórum sinnum meira á­vanda­bindandi en nokkuð annað fjár­hættu­spil. og þar með talið í­þrótta­veð­mál, póker og í rauninni bara hvers­konar fjár­hættu­spil
og það sem við erum í rauninni bara að vekja at­hygli á er að sið­ferðis­lega ber Rauða krossinum skylda til að upp­lýsa fólk um þessa fjár­öflunar­leið,“ segir Alma.

Spilakassar passi ekki við siðferðisleg gildi Rauða krossins

Þér finnst þetta ekki passa við sið­ferði rauða krossins og hvað þau standa á bak­við? að þau séu að reka þessa spila­kassa?

„Nei og við höfum vissu­lega vakið máls á því. Rauði krossinn á sam­eignar­fé­lag sem heitir Ís­lands­spil og þeir ný­verið juku við hlut sinn þar sem að hlut var skilað vegna þess að það þótti ekki sam­fé­lags­lega rétt, hann var sið­laus,“ segir Alma og á þar við að SÁÁ á­kvað að draga sig út úr rekstri spila­kassa í desember árið 2020.

„Þetta er ekki í takt við það sem Rauði krossinn gefur sig út fyrir og ef að fólk skoðar grunn­gildi Rauða krossins þá veltir maður því fyrir sér hvort að þessi grunn­gildi eigi ekki við um spila­fíkla, hvort að þeir séu annars­konar hópur eða ég átta mig ekki al­menni­lega á því.“

Peningarnir komi frá spilafíklum

Þið hafið bent á það að það sé ekki al­menningur sem sé að spila í þessum kössum og að peningarnir komið ekki frá þeim heldur frá fólki sem er með spila­fíkn?

„Al­gjör­lega og ný­lega gaf starfs­hópur á vegum Há­skóla Ís­lands út skýrslu og þar kemur sterkt fram að þetta er of­boðs­lega fá­mennur hópur, við erum að tala um 1-2000 manns og þetta er mjög jaðar­settur hópur sem getur í rauninni engan veginn hönd fyrir höfuð sér borið gagn­vart jafn öflugum sam­tökum og Rauða krossinum.“

Þið hafið lagt þá kröfu fram að spila­kössunum verði lokað, að hér verði engir spila­kassa. þá hefur fólk talað um að fólk færi sig þá yfir á inter­netið, er það rétt?

„Það eru í rauninni engar rann­sóknir sem styðja það, ekki neinar, og það sem gerir málið kannski enn flóknara er að stjórn Rauða krossins hefur sótt það mjög stíft að fá að inn­leiða inn­lenda net­spilun,ׅ“ segir Alma.

„Eina sem að vakir fyrir okkur með þessari um­ræðu er að vekja fólk að­eins til um­hugsunar vegna þess að peningum fylgir á­byrgð og að styðja við mál­efni hvort sem það er í formi peninga eða vinnu að fólk þá alla­vega að minnsta kosti setji ein­hvers­konar spurningar­merki við þennan rekstur og jafn­vel óski eftir því að Rauð krossinn dragi úr henni eða hrein­lega loki henni.“

Þið hafið líka bent á það að það hafi gengið erfið­lega að fá til­lögur að úr­bótum frá bæði Ís­lands­spilum og Happ­drætti Há­skólans, frá starfs­hópi sem var gerður til þess að gera þessar úr­bætur, þær hafa ekki enn­þá borist?

„Nei þær hafa ekki enn­þá borist og við sendum opið bréf bæði á Há­skóla Ís­lands og eins á Rauða krossinn þar sem við óskuðum eftir þeirra til­lögum og sér­stak­lega þá Rauða krossins sem hefur í­trekað sagt opin­ber­lega að þeir hafi þeir hafi í ára­tugi verið að starfa að úr­bótum á þessum markaði hingað til höfum við ekki séð neitt og ef að fólk fer til dæmis inn á heima­síðu Rauða krossins þá er ná­kvæm­lega engin vinna eða engar til­lögur og það sem verra er að þessum hóp er í rauninni, Rauði krossinn slaufar al­gjör­lega fram hjá vanda þessa hóps.“

Er það þín upp­lifun að málið sé kannski ekki flóknara en það að þetta er bara það mikið af peningum að úr­bæturnar minnka fjár­magnið sem kemur til þessara aðila?

„Það er náttúru­lega eitt­hvað sem Rauði krossinn verður að svara fyrir sjálfur en við vissu­lega, með því að fara í til að mynda skaða­minnkandi að­gerðir þá segir það sig nokkuð sjálft að sá hópur sem er að missa tökin og Rauði krossinn er í rauninni að nýta sér hann mun spila minna.“