Japanskur maður fékk rúm­lega 47 milljónir króna færðar á banka­reikning sinn fyrir slysni og eyddi peningnum öllum í fjár­hættu­spil. Peningurinn átti að vera styrkur til 463 fá­tækra heimila í bænum Abu í Vestur-Japan vegna að­gerða stjórn­valda við heimsfar­aldri Co­vid-19.

Maðurinn, sem er 24 ára, fékk peninginn sendan í apríl og segist hafa brennt í gegn um hann allan á tveimur vikum. Hann átti upprunalega að fá rúm­lega hundrað þúsund krónur í styrk frá bæjar­stjórninni en fyrir slysni var öll styrk­upp­hæðin, 47 milljónir, milli­færð á reikninginn hans.

Þegar bæjar­stjórn upp­götvaði mis­tök sín sendu þau út á­kæru á hendur mannsins þann 12. maí þar sem hann var krafinn um peninginn og lög­fræði­kostnað. Þau náðu þó ekki í manninn í fyrstu, sem býr einn og hafði hætt í vinnunni sinni skömmu áður.

Þegar náðist í manninn sagðist hann fyrst ætla að skila peningnum. Síðar segir hann að peningurinn hafi verið færður frá reikningnum án skýringa. Gögn sýna að hann tók allan peninginn út af reikningnum frá tíma­bilinu 8. – 21. apríl.

Gæti reynst erfitt að bæta tapið

Lög­fræðingur mannsins sagði í vikunni að hann hafði eytt öllum peningunum í fjár­hættu­spil á netinu. Hann gæti ekki skilað peningunum þar sem hann væri sjálfur í bágri fjár­hags­stöðu.

Bæjar­stjóri Abu, Nori­hik­o Hamada, segir að­gerðir mannsins vera ó­fyrir­gefan­legar og að hann muni gera allt í sínu valdi til að ná peningunum aftur. Hisashi Sonoda ,sér­fræðingur í refsi­rétti við Kobe há­skóla, segir í sam­tali við The Guar­dian ó­lík­legt að bærinn nái að bæta upp tapið, enda eigi maðurinn engar eignir.

Sonoda segir að gjörðir mannsins séu á mjög gráu svæði en erfið­lega gæti gengið að sak­fella hann fyrir þær enda sé rétturinn til að taka pening út af eigin reikningum varinn í japönskum lögum.

Bærinn hefur nú sent hundrað þúsund krónur á hvert heimili sem átti upp­runa­lega að fá styrkinn.