Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir Fjármálaeftirlitið og Neytendastofu benda hvort á annað hvað varðar eftirlit með starfsemi viðskiptahátta smálánafyrirtækja og fyrir vikið falli neytendur milli skips og bryggju.
„Það er ólíðandi að eftirlitsstofnanir spili borðtennis með neytendavernd á lánamarkaði,“ segir Breki. „Það vísar hver á annan og neytendur liggja óbættir hjá garði á meðan.“
Breki vísar til máls einstæðrar móður sem Fréttablaðið fjallaði um í gær, en á miðvikudaginn, á útborgunardegi, tæmdi smálánafyrirtækið Núnú lán ehf. bankareikning hennar með því að taka út ríu færslur, samtals tæplega 290 þúsund krónur.
„Það er alþekkt að bankar og önnur fyrirtæki skuldfæra bankareikninga neytenda. Það er hins vegar gert á gjalddaga eða eindaga en ekki eftir eindaga þegar miklum innheimtukostnaði hefur verið safnað upp, eins og í þessu tilfelli og fleirum hjá smálánafyrirtækjum. Við teljum eftirlitsaðila vera að bregðast neytendum með því að láta svona viðskiptahætti óátalda,“ segir Breki.
Leifur Haraldsson, framkvæmdastjóri Núnú lána ehf., segir fyrirtækið alltaf vera að reyna að bæta þjónustuna og skoðað sé hvernig hægt sé að koma til móts við fólk sem lendir í svona. Hann hafi haft samband við Neytendasamtökin og óskað eftir upplýsingum um þá sem hefðu leitað til þeirra með svona mál og bíði svars.