Fíkniefnið spice fannst nýverið í rafrettum hjá unglingum á höfuðborgarsvæðinu að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Fréttablaðið greindi frá því fyrir nokkru að í lok sumars lést fangi á Litla-Hrauni eftir að hafa innbyrt mikið magn af fíkniefninu spice.

„Þetta er mikið áhyggjuefni og því vill Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vekja athygli á málinu og hvetja forráðamenn barna og unglinga til að vera á varðbergi,“ segir í tilkynningu frá lögreglu. Bent er á að efnið er nánast lyktarlaust og getur valdið örari hjartslætti, háum blóðþrýstingi, ofskynjunum, ofsóknaræði, kvíðaköstum og árásargirni.

„Það var hegðun unglinganna sem leiddi til afskipta af þeim í umdæmi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og var lagt hald á rafrettur. Veipvökinn úr þeim var rannsakaður á rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði og reyndist hann innhalda Spice, auk nikótíns. Málið er unnið í samráði við barnaverndaryfirvöld.“

Talið er að efnið komi til landsins í hreinu formi. Það er mjög sterkt og þarf lítið til; úr aðeins einu grammi af hreinu spice er hægt að búa til einhver hunduð neysluskammta að sögn Jóns Þórs Kvaran, meðferðarfulltrúa á Litla-Hrauni.