Að­dragandinn að fyrsta fundi þeirra Joe Biden Banda­ríkja­for­seta og Vla­dimír Pútíns Rúss­lands­for­seta er spennu­þrunginn ef marka má vest­ræna miðla. Leið­togarnir tveir munu hittast í Genf í dag og ræða röð mála sem valdið hafa spennu á milli landanna tveggja.

Í um­fjöllun The Guar­dian kemur fram að Biden hafi áður sagt að hann muni sækjast eftir stöðugum og fyrir­sjáan­legum sam­skiptum við Rússa. Áður hefur hann verið harð­orður í garð Rúss­lands­for­seta og sakað Rússa um að hafa skipt sér af for­seta­kosningum, ýtt undir stríð meðal ná­granna sinna og fangelsað stjórnar­and­stæðinga.

Um er að ræða fyrstu utan­lands­ferð Pútíns frá því að heims­far­aldurinn vegna kórónu­veirunnar hófst 2020. For­setinn hefur áður lýst yfir reiði vegna stuðnings Banda­ríkja­manna við rikis­stjórn Úkraínu, sem og vegna stuðnings Banda­ríkja­manna við stjórnar­and­stæðinga í Rúss­landi og Hvíta-Rúss­landi auk stækkunar Nató inn í austari hluta Evrópu.

Í um­fjöllun Guar­dian er þess getið að banda­rísk og rúss­nesk yfir­völd muni sækjast eftir sam­eigin­legum skilning í málum líkt og mál­efnum kjarna­vopna en þó muni báðir aðilar að öllum líkindum fara að öllu með gát í við­ræðum dagsins. Einn sér­fræðingur sem Guar­dian vitnar til líkir fundi dagsins við „heimilis­hald“ eftir nokkur ár af erfiðum sam­skiptum.