Ás­mundur Einar Daða­son, fé­lags­mála­ráð­herra og odd­viti Fram­sóknar í Reykja­vík norður og Ást­hildur Lóa Þórs­dótir, for­maður Hags­muna­sam­taka heimilanna og odd­viti Flokks fólksins í Suður­kjör­dæmi voru gestir Páls Magnús­sonar í síðari hluta Pólitíkur með Páli á Hring­braut. Þáttinn má horfa í heild sinni neðst í fréttinni.

Ás­mundur segir að aukið fylgi Fram­sóknar í skoðana­könnunum ný­verið megi rekja til þess að flokkurinn hafi unnið að sínum málum og nefndi hann mennta­mál, sam­göngu­mál og mál sem varða börn.

„En síðan held ég líka að við höfum séð það í um­ræðunni í mörgum málum að hún er að pólerast svo­lítið. Við erum að sjá ysta hægrið takast á við ysta vinstrið,“ segir Ás­mundur. Nefndi hann fyrri gesti þáttarins, þá Gunnar Smára og Guð­laug Þór.

„Þar var verið að takast á frá vinstri og yfir til hægri. Við í Fram­sókn höfum lagt á­herslu á það að við höfnum öfgum til ysta hægrisins og ysta vinstrisins og segjum að fram­tíðin ráðist á miðjunni,“ segir Ás­mundur. Hann segist telja að margir Ís­lendingar séu þar.

Ás­mundur mælist inni á þingi sam­kvæmt nýjustu könnunum. Að­spurður að því hvort hann sjái eftir því að hafa flutt sig um kjör­dæmi, frá norð­austri til Reykja­vík norður, svarar Ás­mundur því neitandi.

„Ég sé alls ekki eftir því vegna þess að þau mál sem ég hef verið að vinna að á kjör­tíma­bilinu, mig langaði til að leggja á­herslu á þau og ég trúi því að það sé stuðningur við þau hér í Reykja­vík,“ segir ráð­herrann.

Vill öfluga miðju sem hryggjar­stykki

Að­spurður út í það hvort hann sé sá ráð­herra Fram­sóknar sem sé minnst spenntur fyrir endur­nýjun nú­verandi ríkis­stjórnar­sam­starfs, segist Ás­mundur telja að fái stjórnin á­fram­haldandi um­boð muni odd­vitar setjast niður og ræða sam­starfið.

„En eftir því sem um­ræðan í sam­fé­laginu er að pólerast meira, lengst til vinstri og lengst til hægri tel ég að það þurfi að vera öflug miðja,“ segir Ás­mundur. Fram­sókn sé á miðjunni og segist Ás­mundur telja að öflug miðja ætti að verða hryggjar­stykki í næstu ríkis­stjórn.

„Og að sjálf­sögðu vilja allir flokkar að þeirra flokkar leiði ríkis­stjórn,“ segir Ás­mundur og bendir á að Sigurður Ingi hafi reynslu af því að leiða.

Að­spurður að því hvort hann vilji sjá stjórnina raðast upp öðru­vísi en í dag, segir Ás­mundur að hann hafi komið sínum málum vel í gegn í nú­verandi stjórn.

„En hins­vegar er það alveg ljóst að eftir því sem miðjan er öflugri í ís­lenskum stjórn­málum að þá náum við að úti­loka öfgarnar bæði til hægri og vin­stir. Það er það sem við viljum sjá, við viljum sjá öfluga og sterka miðju,“ segir Ás­mundur.

„En það þarf að passa það að sú miðja sé fram­sækin, vegna þess að það að vera á miðju stjórn­málanna þýðir ekki að það séu ekki breytingar í gangi, það þýðir hins­vegar að við séum að hafna öfga­breytingunum til hægri og vinstri.“

Ásthildur segir Ásmund hafa viljað gera meira fyrir heimilin.

Hefði viljað sjá meira gert fyrir heimilin

Ást­hildur mælist nú inná þingi en segist að­spurð ekki sjá það svo að líf og dauði Flokks fólksins velti á sér.

„Ég reyndar held að líf og dauði flokksins sé ekki undir mér kominn en ég er alveg klár á því að við séum að fara að fá miklu meira heldur en skoðana­kannanir hafa sýnt,“ segir Ást­hildur.

Hún segir kannanir flöktandi og þá sé eldra fólk gjarnan ekki spurt. Hún sé ekki líf­lína flokksins. Að­spurð að því hvar Ást­hildur telur Ás­mund hafa staðið sig verst í málum sem snerta Hags­muna­sam­tök heimilanna hrósar Ást­hildur Ás­mundi.

„Hitt er svo annað mál að við vorum ekki sátt við að­gerðir í sam­bandi við CO­VID. Við vitum reyndar að Ás­mundur vildi ganga lengra í þeim efnum fyrir heimilin en það er spurning hvar það strandaði,“ segir Ást­hildur.

Það sé því á­huga­vert að heyra orð Ás­mundar um nú­verandi ríkis­stjórnar­sam­starf. „Vegna þess að ég held að við vitum alveg hvar það strandaði, það strandaði ekki hjá Ás­mundi, það strandaði í fjár­mála­ráðu­neytinu, fyrst og fremst,“ full­yrðir Ást­hildur.

Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér að neðan. Við­talið við þau Ás­mund og Ást­hildi hefst á 33:11.