Guðrún Aspelund, yfirlæknir sóttvarnasviðs hjá Embætti landlæknis, var fyrr í vikunni ráðin sem næsti sóttvarnalæknir. Hún var eini umsækjandinn að starfinu og var ráðin í kjölfar mats á umsókn og ítarlegs viðtals. „Ég geri mér grein fyrir að starfinu fylgir mikil ábyrgð og ég hlakka til að takast á við verkefnin sem eru fram undan,“ sagði Guðrún í tilkynningu frá Embætti landlæknis.

Í samtali við Fréttablaðið sagðist hún ekki hræðast það umtal sem skapast hefur um embættið. „Ég hef auðvitað séð það að Þórólfur hefur verið í eldlínunni og komið fram fyrir bæði hönd síns sviðs og sóttvarnayfirvalda síðustu tvö ár og auðvitað hefur það verið mjög krefjandi,“ segir Guðrún og bætti við að hún væri alveg tilbúin að taka þetta að sér.

Guðrún segir ráðninguna leggjast vel í sig. „Ég er spennt, ég veit að þetta er krefjandi og mikið ábyrgðarstarf en þetta verður mjög áhugavert,“ bætir hún við. Hún segir þetta vera áskorun sem hún er tilbúin að takast á við, enda hafi hún starfað á sóttvarnasviði í tæp þrjú ár. „Það er búið að vera mikið álag og mikið að gera, þannig að mér finnst ég hafa góða sýn á þetta starf, vita um hvað það snýst og vera búin að fá góða reynslu, fyrir utan þann bakgrunn sem ég hef,“ segir hún.

Frá árinu 2019 hefur Þórólfur verið næsti yfirmaður Guðrúnar. Hún hefur starfað sem yfirlæknir á sóttvarnasviði hjá Embætti landlæknis, en sóttvarnalæknir er sviðsstjóri sóttvarnasviðs. Guðrún er því ekki að færa sig langt og veit vel hverju er búist við af henni í nýju starfi.

Guðrún segist ætla að taka gott frí í sumar áður en hún tekur við starfi sem sóttvarnalæknir seinna í haust, enda hafi það verið í kortunum áður en hún var ráðin. Hún segir starfsmenn sóttvarnasviðs hafa fengið hvatningu til að taka sumarfrí, enda hefur lítið verið um frí á sóttvarnasviðinu síðustu ár.

Uppruni:

Guðrún er fædd 12. febrúar árið 1971. Hún ólst upp á Öldugötu í Vesturbænum í Reykjavík en flutti síðan á Seltjarnarnes þar sem hún bjó lengst af áður en hún fór í háskóla.

Ferill:

Guðrún hefur embættispróf í læknisfræði frá Háskóla Íslands og sérmenntun í bæði almennum skurðlækningum og barnaskurðlækningum. Guðrún hefur einnig meistaranám í líftölfræði. Á árunum 2007 til 2017 var hún lektor og barnaskurðlæknir við Colombia-háskóla. Í dag, og fram að 1. september, starfar hún sem yfirlæknir á sviði sóttvarna hjá Embætti landlæknis.

Fjölskylduhagir:

Guðrún og eiginmaður hennar, Gunnar Jakobsson, gengu í hjónaband árið 1998 eftir að hafa verið í sambandi í rúm fimm ár, þau kynntust á háskólaárunum. Saman eiga þau hjónin tvær dætur en þær eru þrettán og sextán ára.

Áhugamál:

Áhugi Guðrúnar á læknisfræði kviknaði á menntaskólaárunum. Hún fór í MR og segist þar hafa fengið áhugann. Guðrún segir áhugamál sín fara mikið eftir veðri og árstíma, þá helst að hjóla, skíða og ganga.