„Flestir sem við höfðum samband við eru spenntir,“ segir Gyða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri North Atlantic Agency, sem leiðir verkefnið Clean Up Iceland sem felur í sér fjöruhreinsun farþega af minni skemmtiferðaskipum hér við land.

Gyða segir hugmyndina komna frá Svalbarða þar sem Arctic Expedition Cruise Operators, samtök fyrir útgerðir leiðangursskipa, hafa í tvo áratugi siglt með farþega í land á gúmmíbátum og þeir tínt rusl í poka sem síðan er fargað.

„Fólkið um borð í leiðangursskipunum hefur mikinn áhuga á að taka þátt í hreinsunum. Þarna eru líka tækifæri til að komast í snertingu við náttúruna á annan hátt og kannski komast á staði sem eru ekki hefðbundnir áfangastaðir fyrir ferðamenn,“ segir Gyða.

North Atlantic Agencey, NAA, eru samtök umboðsfyrirtækja fyrir skemmtiferðaskip á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum. Auk NAA og AECO sem áður er nefnt er Clean Up Iceland verkefnið unnið í samstarfi við Cruise Iceland, sem eru samtök ýmissa hafna á Íslandi, og Bláa herinn. Gyða segir Tómas Knútsson, stofnanda Bláa hersins, vera helsta ráðgjafann og þangað eigi allir peningar sem safnist frá styrktaraðilum að renna.

„Við viljum nýta þennan áhuga á íslenskri náttúru til að hreinsa fjörur sem ekki er hægt að komast að á bíl og verða ekki hreinsaðar annars,“ segir Gyða. Hún undirstrikar að farþegar á svokölluðum leiðangursskipum skeri sig úr frá farþegum stóru farþegaskipanna.Mynd/Iona Sjöfn

Gyða Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri NAA

„Það eru náttúruunnendur sem eru að fara í þessar ferðir og eru í raun að borga fyrir að komast í land og tína rusl – eins fáránlegt og það virðist,“ segir Gyða sem tekur þó fram að farþegarnir þurfi reyndar ekki að kaupa sérstaklega ferð í land til að hreinsa fjörur. Útgerðir skipanna og önnur fyrirtæki styrki verkefnið.

Leitað hefur verið til hafnarstjórna og sveitarstjórna um samstarf. Í Fjarðabyggð reyndist ekki áhugi fyrir að fá hreinsunarfólk í land eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær. Gyða segir að hins vegar hafi fengist jákvæðar undirtektir á ýmsum öðrum stöðum. Það eigi til dæmis við um Skagafjörð, Hjalteyri í Eyjafirði og Reykjarfjörð á Hornströndum þar sem farþegar hjá Hurtigruten sigldu einmitt í land í fyrrasumar til að hreinsa fjörur.

„Það er bara aðallega spurt hvort við séum virkilega að spyrja hvort fólk megi koma í land að tína rusl hjá þeim,“ lýsir Gyða viðtökunum sem Clean Up Iceland hefur fengið.