Ný staða er komin upp eftir að Rússar hótuðu að ráðast á skotmörk innan Bretlands í kjölfar yfirlýsinga James Heappey, hernaðarráðherra Bretlands.

Heappey hélt því fram í viðtali við BBC að Úkraína væri í „fullum rétti“ að ráðast á skotmörk innan Rússlands í þeim tilgangi að veikja hernaðarlega getu landsins.

Rússar túlka ummælin þannig að bresk stjórnvöld hafi hvatt til frekara stríðs við Rússland. Einnig telja Rússar að með vopnaflutningum sínum séu aðildarríki NATO að stunda leppstríð (proxy war) við Rússland í gegnum Úkraínu.

Heappey hefur svarað Rússum þar sem hann segir að vopnagjafir til Úkraínu skuli ekki flokka sem sameiginlegt átak NATO ríkja.

„Vopnagjafirnar koma ekki frá NATO þrátt fyrir að mörg þeirra landa sem gefið hafa vopn séu aðildarríki,“ segir Heappey.

Samhliða hörðum viðbrögðum hafa rússnesk stjórnvöld ákveðið að takmarka gassölu til Póllands og Búlgaríu eftir að stjórnvöld landanna neituðu að greiða fyrir gasið í rúblum.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hefur gefið út að Póllandi og Búlgaríu muni gefast kostur á að kaupa gas frá öðrum nágrannalöndum innan Evrópu.

Evrópsk stjórnvöld hafa fordæmt aðgerðir Rússa sem þau kalla „fjárkúgunaraðferðir“. Þau heita að auka við vopnaflutning og aðstoð við Úkraínu.

Breytir engu um stuðning Íslands

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra segir að þessar hótanir Rússa breyti engu um stuðning Íslands við Úkraínu.

Í svörum utanríkisráðherra vegna fyrirspurnar Fréttablaðsins segir að Ísland hafi tekið einarða afstöðu gegn innrás Rússlands í Úkraínu eins og öll vina- og bandalagsríki landsins.

"Þessi stuðningur grundvallast meðal annars á sameiginlegum skilningi á mikilvægi þess að koma í veg fyrir að stríðsátökin breiðist út, en þar er mikilvægt að árétta að eini aðilinn sem ráðist hefur inn í annað land í þessum átökum er Rússland,“ segir Þórdís Kolbrún.

Utanríkisráðherra segir að Rússlandi standi engin ógn af aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins eða öðrum vina- og bandalagsríkjum Íslands. Stofnsáttmáli Atlantshafsbandalagsins kveði hins vegar á um að árás á eitt ríki jafngildi árás á þau öll. Þegar komi að öryggi sé Ísland aðili að Atlantshafsbandalaginu. Að auki sé varnarsamningur milli Bandaríkjanna og Íslands.

„Í þeim efnum er staða Íslands ákaflega traust og ég tel mikilvægt að við leggjum okkur fram um að vera góðir bandamenn,“ segir Þórdís Kolbrún.

Atlantshafsbandalagið virkjaði varnaráætlanir sínar sama dag og innrás Rússlands hófst. Ein þeirra á við um Ísland.

„Áætlanirnar fela í sér aukna árvekni og viðbragðsgetu í ljósi framgöngu Rússlands,“ segir Þórdís Kolbrún.

Hún segir Ísland hafa lagt áherslu á að styðja við Úkraínu með þeim hætti sem mögulegt er. Á þeim forsendum sem óskað hefur verið eftir.

„Framlag Íslands hefur að langstærstum hluta falist í stuðningi við mannúðarstarf, fjárstuðningi við úkraínska ríkið, auk þess sem við höfum tekið á móti flóttamönnum frá Úkraínu,“ segir Þórdís Kolbrún.

Þá hafi Ísland tekið þátt í flutningum til að styðja við varnir Úkraínu, eins og komið hefur fram í fjölmiðlum.