Margir eru farnir að hlakka til þrettándagleði ÍBV í Vestmannaeyjum sem verður haldin eftir tveggja ára hlé í kvöld. Margvísleg dagskrá verður í boði, þar á meðal flugeldasýning, blysför, álfabrenna, tröll, jólasveinar, tónlist og margt fleira en gangan hefst klukkan 19.00.
Haraldur Pálsson, framkvæmdastjóri ÍBV, er einn af skipuleggjendum hátíðarinnar og segir undirbúning ganga vel.
„Það er náttúrulega búið að vera tveggja ára hlé á öllu. Þetta hefur gengið ágætlega en það sem hefur verið að stríða okkur er færðin. Hún hefur tafið undirbúninginn. En þetta er allt að smella saman,“ segir Haraldur en hann telur það rétt að fáir taki þrettándanum eins alvarlega og Vestmannaeyingar og ÍBV.

Haraldur segir að dagskráin hefjist á Flötunum þar sem kveikt verður á kertum.
„Svo er labbað upp Illugagötuna alla og snúið hjá Hvíld niður á malarvöllinn og þar er brennan og tröllin eru höfð uppi á bíl sem hafður er með í göngunni,“ segir Haraldur en mikill undirbúningur hefur verið í tröllasmiðju Eyjamanna í vikunni sem sér um að gera þau tilbúin fyrir þrettándann. „Jólasveinarnir bætast svo við aftast þegar þeir koma niður af fjöllunum. Svo er bæði flugeldasýning uppi á Hánni þar sem gangan fer af stað og svo líka niðri á malarvellinum,“ segir hann.
Haraldur segir alla að sjálfsögðu velkomna á hátíðina.
„Þetta er hálfgerð bæjarhátíð enda ekkert verið að rukka inn og Vestmannaeyjabær styður okkur í þessari vitleysu ef svo má segja,“ segir Haraldur að lokum.