Ferðamenn frá Þýskalandi dvelja einna lengst hér á landi en dagleg velta þýskra greiðslukorta er aðeins um þriðjungur þeirra norsku. Norðmenn eyða mestu á hverjum degi en stoppa einna styst.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu um stöðu verslunar og þjónustu sem Hagfræðideild Landsbankans birti í gær.
Þar segir að norskir ferðamenn eyði rúmlega 58 þúsund krónum að meðaltali á dag þegar þeir koma hingað til lands. Þar á eftir koma Kanadamenn sem eyða að meðaltali rúmlega 46 þúsund krónum á dag. Kínverskir ferðamenn eyða minnstu, tæpum 17 þúsund krónum að meðaltali á dag.
Norðmenn dvelja þó hér á landi stutt eða að meðaltali í 2,4 skráðar gistinætur á árunum 2017-2019. Ferðamenn frá Þýskalandi stoppuðu lengst á árunum 2017-2019, að meðaltali 6,2 gistinætur, og eyddu minnstu á hverjum degi að undanskildum Kínverjum, sem dvöldu einnig lengur en meðal ferðamaður, eða 4,4 gistinætur.
„Vöxtur innlendrar verslunar og þjónustu er að stórum hluta háður því hversu margir ferðamenn koma til landsins, hversu lengi þeir dvelja og hversu miklu þeir eyða á ferðalaginu,“ segir Una Jónsdóttir, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans.
Í skýrslunni er bent á að ferðamenn virðast gera betur við sig á ferðalögum um Ísland en fyrir faraldur, auk þess sem þeir dvelja almennt lengur. Það er rökstutt með því að þó að ferðamenn hafi verið 20 prósentum færri í október í ár en í sama mánuði árið 2018, sé kortaveltan mjög svipuð og þá, á föstu gengi.
Í október í ár var kortavelta hvers ferðamanns að meðaltali 130 þúsund krónur en árið 2018 var hún 106 þúsund krónur, miðað við fast gengi. Eru allar tölur miðaðar við árin 2018-2019 á verðlagi þess tíma.