Manni sem var sparkað niður 23 steyptar tröppur við veitingastað í Reykjavík þann 29. október á síðasta ári virðist vera byrjaður að geta tjáð sig.
Lögreglan ætlar því að framkvæma frekari rannsókn í málinu, til að mynda með því að taka skýrslu af manninum.
Þetta kemur fram í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu, en áður hafði verið greint frá því að maðurinn væri þungt haldinn. Hann hlaut alvarlega áverka af árásinni og þarf á endurhæfingu að halda.
Lögreglan telur myndband sýna hver framdi árásina
Landsréttur úrskurðaði í dag mann sem grunaður er um að sparka honum niður tröppurnar í áframhaldandi gæsluvarðhald, til föstudagsins 20. janúar. Hann er grunaður um tilraun til manndráps eða stórfellda líkamsárás.
Í úrskurði málsins kemur fram að myndefni úr öryggismyndavélum sýni þegar manninum var sparkað niður tröppurnar. Að mati lögreglu sást maðurinn sem grunaður er um verknaðinn á veitingastaðnum umrætt kvöld og telur hann vera manninn sem sparkaði honum niður.
„Að mati lögreglu er um sama aðila að ræða en sjá má sömu klippingu, hárlit og hárlínu með áberandi háum kollvikum,“ segir í úrskurði héraðsdóms frá því í nóvember, en í nýjum úrskurði hefur „háum kollvikum“ verið tekið út.
Fram kemur að hann sjáist taka tilhalup og síðan sparka manninum niður tröppurnar, sem eru eins og áður segir 23 steyptar tröppur.
Hann segist ekki hafa neinar minningar um umrætt kvöld eða í raun dagana þar á undan ef út í það væri farið.
Landsréttur hefur úrskurðað að ekki verði annað ráðið af myndbandinu en að skýr ásetningur hefði staðið til verksins. Því væri gæsluvarðhald nauðsynlegt vegna almannahagsmuna.