Maríanna Hallgrímsdóttir, þriggja barna móðir og hjúkrunarfræðingur, segir miður að íslensk stjórnvöld bjóði börnum ekki upp á besta mögulega kostinn þegar kemur að bólusetningum stúlkna gegn HPV-veirunni sem getur valdið leghálskrabbameini.

Bóluefnið sem stúlkur fá hér á landi ber heitið Cervarix og ver gegn tveimur tegundum af HPV-veirunni, eða um 70 prósentum. Breiðvirkara bóluefnið Gardasil 9 ver gegn níu tegundum og er um 90 prósenta vörn.

Kjósi forsjáraðilar að fá betri vörn fyrir dætur sínar þarf að óska sérstaklega eftir því og greiða fyrir allan kostnað.

Ekki veittar upplýsingar um efnin nema að eftir því sé leitað

„Foreldrar fá tölvupóst frá skólahjúkrunarfræðingi um bólusetninguna sem nefnir ekki hvaða bóluefni stelpurnar fá,“ upplýsir Maríanna. Ekki séu veittar upplýsingar um efnin nema að eftir því sé leitað. Hún afþakkaði bóluefnið sem boðið var upp á og leitaði til heimilislæknis sem pantaði breiðvirkara efnið fyrir börn hennar sem eru 16 ára tvíburar og 12 ára stúlka.

„Ég var búin að kynna mér muninn á bóluefninu þegar tvíburarnir voru 12 ára en sofnaði aðeins á verðinum sem varð til þess að börnin voru orðin 15 ára þegar ég lét bólusetja þau með Gardasil9, en þá þurftu þau að fá þrjár bólusetningar í stað tveggja,“ upplýsir Maríanna sem vonaðist til að fyrrnefnt bóluefni væri komið inn í almennar bólusetningar á þeim fjórum árum sem eru á milli barna hennar.

„Við konur þekkjum allar konur sem hafa fengið frumubreytingar og margar sem hafa farið í keiluskurð,“ segir Maríanna sem sjálf hefur fengið frumubreytingar: „Ef við getum komið í veg fyrir þetta líkt og er gert með aðrar veirutegundir, af hverju þá ekki?“ spyr hún sig.

Maríanna Hallgrímsdóttir hjúkrunarfræðingur hefur látið bólusetja börn sín með breiðvirkara bóluefninu Gardasil9.
Mynd/Aðsend

Ef við getum komið í veg fyrir þetta líkt og er gert með aðrar veirutegundir, af hverju þá ekki?

Síðasta útboð var árið 2016

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, yfirlæknir bólusetninga, segir ástæðuna fyrir því að stúlkum sé ekki boðið bóluefnið Gardasil 9 vera þá að ekkert „ráðrúm“ hafi verið til.

Þá þurfa bóluefni að fara í útboð en síðasta útboð var árið 2016. „Þá var Cervarix valið og Gardasil 9 var ekki boðið í því útboði,“ upplýsir Kamilla.

„Það verður útboð á næstu mánuðum aftur en það kemur í ljós, sennilega upp úr áramótum, hvaða bóluefni verður notað frá hausti 2023, sem er fyrir fæðingarárganga 2011 og síðar,“ upplýsir Kamilla spurð um hvort Gardasil 9 verði tekið inn í almennar bólusetningar barna á næstunni.

Aðspurð segir Kamilla Gardasil 9 vera breiðvirkara og játar því að Embætti landlæknis hafi borist erindi frá kvensjúkdómalæknum vegna þess.

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, yfirlæknir bólusetninga.
Fréttablaðið/Ernir

Heilbrigðisráðherra segir þörf á að breyta um bóluefni

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir þörf á að breyta um bóluefni. „Þess vegna hefur það verið til skoðunar hjá sóttvarnalækni og matið á þessu, ég býst við því að það fari að liggja fyrir,“ segir hann og bætir við að vinnan að því hafi verið sett af stað fyrir nokkru síðan.

Á vef Embættis landlæknis kemur fram í tölulegum gögnum að um 1.700 konur greinist með forstigsbreytingar á ári og um 14 til 17 konur fái leghálskrabbamein.

Þá segir að um þrjár konur látist árlega á Íslandi af völdum leghálskrabbameins.

Willum þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson
Cervarix ver gegn tveimur veirutegundum en Gardasil9 gegn níu.