Landsbankinn gerir ekki ráð fyrir að leigja eða selja með hagnaði þau 40 prósent af væntanlegum höfuðstöðvum sem bankinn hyggst ekki sjálfur nýta fyrir starfsemi sína.

„Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort sá hluti hússins sem bankinn mun ekki nýta verði seldur eða leigður en bankinn reiknar með að sala/leiga standi undir stofnkostnaði við þann hluta hússins,“ segir í svari sem fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi við fyrirspurn Birgis Þórarinssonar, þingmanns Miðflokksins. Svarið fékk ráðherra frá Landsbankanum með milligöngu Bankasýslu ríkisins sem fer með hlut ríkisins í bankanum.

Birgir spurði meðal annars um áætlaðan byggingarkostnað nýrra höfuðstöðva Landsbankans sem nú rísa við Austurhöfn. Í svarinu kemur fram að kostnaðaráætlunin hafi hækkað úr níu milljörðum króna í maí 2017 í 11,8 milljarða eða um samtals 2,8 milljarða króna. Nemur sú hækkun 31 prósenti. Alls verður byggingin 16.500 fermetra og ætlar bankinn að nota tíu þúsund fermetra af því.

Kostnaður við þann hluta húsnæðisins sem bankinn hyggst nýta er sagður verða um 7,5 milljarðar króna. Bankinn munu flytja starfsemi úr tólf húsum í miðbænum ásamt stærstum hluta Borgartúns 33 undir eitt þak í nýju húsi.

„Því fylgir mikið hagræði og er gert ráð fyrir að árlegur sparnaður bankans af þeim sökum nemi um 500 milljónum króna, einkum vegna lækkunar á húsaleigu og kostnaði við rekstur og viðhald húsnæðis,“ segir í svarinu.

Þingmaðurinn spyr meðal annars um það hvort núverandi höfuðstöðvar Landsbankans í Austurstræti verði seldar eða yfirteknar af ríkissjóði. Er því til svarað að gera megi ráð fyrir að húsnæði bankans verði komi í verð með einum eða öðrum hætti og það nýtt til að fjármagna starfsemina. Ekkert hafi þó enn verið ákveðið.

„Höfuðstöðvar Landsbankans samanstanda af þrettán húsum í Kvosinni og eru einungis fjögur þeirra í eigu bankans. Af þeim er Austurstræti 11 langstærst,“ segir í svarinu. Fasteignamat Austurstrætis 11 hafi í fyrra verið 1.913 milljónir króna,“ er vitnað í svari ráðherra til svars frá Bankasýslunni.

Landsbankinn segir fyrir sitt leyti að engar ákvarðanir hafi verið teknar um framtíðarnýtingu Austurstrætis 11. „Húsið hefur menningarlegt og sögulegt gildi og bankinn mun gefa sér tíma til að finna leiðir til að húsið fái nýtt hlutverk og geti notið sín til framtíðar,“ segir í svari Landsbankans sem ráðherra byggir svör sín á.